Fara í efni
Fréttir

Fjölsmiðjufössari #9 - Dildó og iðnaðarvigt

Þú færð það í Fjölsmiðjunni.. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Á föstudögum í vor langar okkur á Akureyri.net að hressa okkur við fyrir helgina og birta myndaþátt af því besta sem er í boði í Fjölsmiðjunni. Eins og flestir bæjarbúar vita, kennir þar ýmissa grasa og mörg höfum við farið þangað með dótið sem við erum hætt að nota. En hvað er í boði þennan ágæta Fjölsmiðju-fössara?

 

Laugardagskvöld með fótanuddtækið, ljúfa tóna úr kvikmyndinni 'The world is full of married men' og þennan fína dildó hlýtur að vera draumur. Örugglega skemmtilegra en kosningavaka.

 

Nóg er til af heitu lesefni. Brot af því besta úr Rauðu seríu blöðunum, en í raun eru þetta Andrésblöð fullorðna fólksins. Blaðamaður varð fyrir reyndar fyrir vonbrigðum að opna og sjá að þetta eru víst ekki myndasögur. 

 

Þessi fínu tæki virðast sinna sama hlutverki, en vera frá mismunandi tímabilum. Mögulega tæki til þess að festa tappa á flöskur? Lesendur mega endilega sýna snilli sína og leiðrétta, þetta er ágiskun. 

 

Frábær stóll til þess að framkvæma allskonar aðgerðir á öðru fólki. Það er hægt að krukka í viðkomandi hvar sem er, þar sem stóllinn hallast og hægt er að lyfta fótunum upp. 

 

Rúllurnar góðu. Orðrómur er um að það sé að komast aftur í tísku hjá ungu kynslóðinni að setja í sig rúllur. Vertu á undan hjörðinni!

 

Klassíkin góða, fótanuddtækið bláa. Búið er að eitra fyrir fótsveppum fortíðarinnar og allt klárt fyrir nýjan eiganda. Á myndinni er líka þessi fína iðnaðarvigt sem hefur eflaust verið í einhverju kjötborðinu í bænum. 

 

Þessi flotta trappa væri þarfaþing inn á flest heimili. Það þarf alltaf, fyrr eða síðar, að komast hærra upp.

 

Fyrir barnshafandi er þetta ábyggilega nytsamleg græja. Alltaf hægt að athuga með hjartslátt erfingjans í maganum. Auk þess fylgir frítt gel! 

 

Hjólin eru alltaf á sínum stað og flott úrval fyrir fólk á öllum aldri. 

 

Þökkum Fjölsmiðjunni kærlega fyrir að opna dyrnar fyrir blaðamanni, og hvetjum fólk til þess að halda áfram að styrkja það góða starf sem þar fer fram. Í leiðinni viljum við minna á hina nytjamarkaðina í bænum, Hertex, markað Rauða krossins og Norðurhjálp. Endurnýtum og styrkjum gott málefni í leiðinni. Góða helgi!