Fara í efni
Fréttir

Leystu upp 50-60 manna unglingapartí

Enn ein rúðan brotin. Svona var að aðkoman að Kjarnakoti í Kjarnaskógi í gærmorgun. Ljósmynd: Jón Birgir Gunnlaugsson.

Lög­regl­an á Ak­ur­eyri leysti upp ung­lingapartí í Kjarna­skógi í nótt en talið er að á milli 50 og 60 ung­ling­ar hafi verið þar sam­an­komn­ir. Það er brot á sóttvarnarreglum. Þetta kemur fram á mbl.is.

Eins og Akureyri.net sagði frá um síðustu helgi hafa skemmdir hvað eftir annað verið unnar í vetur á húsum og innanstokksmunum og aðfararnótt laugardags var enn einu sinni brotin rúða, nú í Kjarnakoti.

Ingólfi Jóhannssyni, framkæmdastjóra Skógræktarfélags Eyfirðinga, var sannarlega ekki skemmt þá: „Ég veit að stundum er best að anda rólega og telja upp að tíu áður þegar maður er jafn fúll og ég er núna – en ég kýs að gera það ekki í þetta skipti. Fyrir það fé sem eytt var til rúðuskipta vetrarins gæti ég keypt, ekki einu sinni heldur tvisvar, ungbarnarólurnar sem mig langar að setja upp í Kjarna en get ekki. Svo á starfsfólkið mitt líka annað og betra skilið en að eyða helgidögunum í uppsópun á hlandkysstum glerbrotum. Þessu verður að linna,“ sagði hann.

Þarfnast hjálpar

Á Facebook síðu Skógræktarfélags Eyfirðinga var í gærmorgun enn einu sinni biðlað til samfélagsins að hjálpa til: 

„Þessir einstaklingar eiga foreldra, fjölskyldur, vini og skólafélaga. Enginn úr þeim hópi réttlætir svona hegðun og við vitum alveg hvað er að gerast í kring um okkur ef við opnum augun. Einhversstaðar er myndum deilt, einhverjir aðstoða við dreifingu og einhverjir vita hvar, hverjir fremja skemmdarverkin osfrv. Ef þið hafið upplýsingar um það tilkynnið það einfaldlega til lögreglu. Ef ekki af hlýhug til Kjarnaskógar, þá af hlýhug til viðkomandi einstaklinga, þeir eru jú sjúkir og þarfnast hjálpar.“

Skemmdarvargar á ferð í Kjarnaskógi

Pissað út í horn og á veggi, brotið og bramlað!