Fara í efni
Fréttir

Leiftursókn í upphafi og öruggur sigur SA

Deildarmeistarar SA 2023-24. SA-konur áttu ekki í neinum vandræðum með að innbyrða sigur á liði SR í kvöld. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Kvennalið SA vann stórsigur á liði Skautafélags Reykjavíkur í kvöld, lokatölur 5-0. Þrjú mörk á fyrstu fjórum mínútum leiksins gáfu tóninn og fyrirheit um það sem koma skyldi og varð leikurinn raunar aldrei spennandi eftir það. Ef til vill er það lýsandi fyrir deildina og mismikla breidd liðanna að útiliðið SA mætti með 20 leikmenn til leiks á meðan SR hafði 13 leikmönnum á að skipa. 

Fyrsta markið kom strax eftir eina og hálfa mínútu þegar Heiðrún Helga Rúnarsdóttir átti skot sem var varið, en fyldi sjálf vel á eftir og kom pökknum yfir marklínuna. Leikmenn SA höfðu áfram yfirhöndina og skoraði Aðalheiður Ragnarsdóttir annað mark liðsins rúmar þrjár mínútur voru liðnar og Sólrún Assa Arnardóttir bætti því þriðja við á sömu mínútunni. Eftir það jafnaðist leikurinn og ekki meira skorað í fyrsta leikhlutanum. 

Það voru svo tæplega fjórar mínútur liðnar af öðrum leikhluta þegar SA skoraði fjórða markið þegar Eyrún Garðarsdóttir skoraði af stuttu færi eftir undirbúning Ragnheiðar Ragnarsdóttur. Það var eina markið í öðrum leikhluta. Magdalena Sulova skoraði svo fimmta mark SA snemma í þriðja leikhlutanum eftir undirbúning Silvíu Ránar Björgvinsdóttur. 

Þrátt fyrir yfirburði í markaskorun vantaði ekki baráttuna í liðin og sést það kannski á fjölda brottvísana í leiknum, en samanlagt fengu liðin 17 sinnum tveggja mínútna refsingar.

SR

Varin skot: Andrea Bachmann 31 (83,33%).
Refsimínútur: 16.

SA

Mörk/stoðsendingar: Sólrún Assa Arnardóttir 1/1, Heiðrún Rúnarsdóttir 1/0, Aðalheiður Ragnarsdóttir 1/0, Eyrún Garðarsdóttir 1/0, Magdalena Sulova 1/0, Andrea Bachmann 0/1, Sveindís Marý Sveinsdóttir 0/1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 0/1, Anna Sonja Ágústsdóttir 0/1, Silvía Rán Björgvinsdóttir 0/1.
Varin skot
: Shawlee Gaudreault 30 (100%).
Refsimínútur
: 18.

Upptöku af leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan.