Fara í efni
Fréttir

Langt síðan farið var fram á viðgerðir

Jón Stefán Jónsson, íþróttafulltrúi Þórs, segir langt síðan farið var fram á það við Akureyrarbæ að ráðist yrði í viðgerðir á gervigrasinu í Boganum. Það hafi sannarlega ekki verið gert fyrir fáeinum dögum, eins og skilja mátti á ummælum fulltrúa bæjarins í gær.

Stjórn Knattspyrnudómarafélags Norðurlands hélt því fram í nýlegri skýrslu að Boginn væri varla nothæfur til keppni þar sem slysagildrur væru margar vegna skemmda í grasteppinu. Akureyri.net hafði í gær eftir Hildu Jönu Gísladóttur, bæjarfulltrúa og varaformanni fræðslu- og lýðheilsuráðs, að bæjaryfirvöldum hefði borist vitneskja um ástand grasmottunnar fyrir fáeinum dögum og strax hefði verið ákveðið að ráðast í viðgerðir hið allra fyrsta.

Jón Stefán sendi Akureyri.net yfirlýsingu um málið í dag, þar sem hann tæpir á fleiri atriðum og segir húsið fjársvelt þegar kemur að viðhaldi.

Yfirlýsing Jóns Stefáns er svohljóðandi:

„Staðan í Boganum er slæm og hefur verið það í langan tíma. Akureyrarbær hefur vitað af stöðunni allan tímann og eru margir mánuðir síðan óskað var eftir viðgerðum á núverandi skemmdum á grasinu, ekki fáeinir dagar eins og haldið hefur verið fram. Húsið er fjársvelt þegar kemur að meiriháttar viðhaldi og þar hefur Íþróttafélagið Þór ekkert um málin að segja. Lýsingin í húsinu er það gömul að ekki er hægt að fá perur, netið í húsinu hífist ekki upp í rétta stöðu og svona mætti lengi telja.

Risastóra málið er auðvitað grasið, forsvarsmenn Bogans hafa óskað eftir að þessu hættulega grasi og öllu undirlagi í Boganum verði skipt út næsta sumar. Áhugavert verður að sjá hvort bærinn taki jafn hratt og örugglega á því erindi eins og hann telur sig hafa gert í þessu máli varðandi skemmdirnar.

Fyrir liggur að grasið er löngu úr sér gengið enda skv. óvísindalegri samantekt búið að nota það sem samsvarar sliti á 18 árum. Ekkert þýðir að segja að grasið eigi að endast í 8-10 ár, því þar er miðað við ákveðna notkunarstaðla – ákveðið margar klukkustundir og fjölda fólks á vellinum – sem grasið í Boganum fer langt framúr.

Grasið hefur raunar verið til vandræða í 2-3 ár sökum galla í lagninu á því upphaflega. Límingar til dæmis illa úr garði gerðar sem veldur því að það er sífellt að rifna upp.

Gúmmípúðinn (fjöðrunin) undir grasinu er ónýtur, sem veldur því að völlurinn er afar harður sem aftur eykur líklega líkur á skemmdum á grasinu en því miður og öllu alvarlegra, það veldur aukinni meiðslahættu. Til að mynda sleit ein allra efnilegasta knattspyrnukona landsins, leikmaður Þórs/KA, krossbönd í húsinu í fyrrasumar. Einnig sleit leikmaður meistaraflokks KA krossbönd í húsinu fyrir tæpum tveimur árum. Fjöldi vöðvatognana og eymsla í baki hefur gert vart við sig hjá iðkendum í húsinu.

Ég er afar ánægður með að forsvarsmenn bæjarins telji sig hafa brugðist hratt við, en eitthvað þarf að athuga hvernig skilaboðin berast á milli fólks innan bæjarkerfisins því það var sannarlega ekki nýlega sem óskað var eftir viðgerðum á grasteppinu í Boganum. Það er alrangt. Mér finnst illa að okkur umsjónarmönnum hússins vegið þegar þessu er haldið fram, því halda mætti að okkur væri sama um ástandið og bærum öryggi iðkenda ekki fyrir brjósti.“

Viðgerðir í Boganum hefjast í vikunni

Boginn vart nothæfur vegna slysahættu