Fara í efni
Fréttir

Keflvíkingar lagðir að velli – MYNDIR

Spenna! Jakob Snær Árnason var augnabliki á undan varnarmanni í boltann þegar Ívar Örn Árnason sendi fyrir Keflavíkurmarkið á 30. mínútu en skot hans úr markteignum fór í stöngina og aftur fyrir. Margir voru spenntir – ekki síst boltastrákurinn ... Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA vann Kefla­vík 4:2 á heimavelli í dag í fyrstu umferð neðri hluta Bestu deild­ar karla, efstu deildar Íslandsmótsins í knatt­spyrnu, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í kvöld. KA-menn léku vel í fyrri hálfleik og þá var enga bikarþynnku að sjá á liðinu, en frammistaðan í þeim seinni var hins vegar ekki til útflutnings. Ef til vill er ekki auðvelt að gíra sig upp í leik sem skiptir litlu sem engu máli. 
_ _ _

ÓSKABYRJUN
Hallgrímur Mar Steingrímsson sendi boltann inn fyrir vörn Keflvíkinga þar sem Jakob Snær Árnason lék inn á teig og skoraði frá markteigshorninu vinstra megin. Þetta var strax á þriðju mínútu leiksins.

Ljósmynd: Sævar Geir Sigurjónsson

_ _ _

HAMRA SKAL JÁRNIÐ ...
Á sjöttu mínútu skoraði Hallgrímur Mar Steingrímsson annað mark KA. Harley Willard sendi boltann inn fyrir vörnina, Hallgrímur var aleinn gegn Mathias Rosenörn markverði og sneiddi boltann laglega framhjá honum. 

Ljósmynd: Sævar Geir Sigurjónsson

_ _ _

FRÁBÆRLEGA VARIÐ FRÁ HALLGRÍMI
Þegar stundarfjórðungur var liðinn átti Hallgrímur Mar fast skot af tiltölulega stuttu færi, boltinn stefndi í markið en Rosenörn varði frábærlega.

_ _ _

GESTIRNIR MINNKA MUNINN
KA hafði öll tök á leiknum en gestirnir náði að jafna þegar stundarfjórðungur var liðinn. Axel Ingi Jóhannsson, til vinstri á neðri myndinni, komst inn á teig hægra megin og átti fasta sendingu fyrir markið þar sem Ísak Daði Ívarsson var ákveðnari en varnarmenn KA og hamraði boltann í netið af stuttu færi.

_ _ _

FYRIRLIÐINN SKORAR
Á 24. mínútu kom Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði sínum mönnum aftur í tveggja marka forystu. Ásgeir var með boltann hægra megin við vítateiginn að nálgast endalínu þegar hann spyrnti fyrir markið og fast skot, eða sending, endaði efst í fjærhorni marksins. Fyrirgjöf eða skot? Skiptir ekki máli. Það var mark!

Ljósmynd: Sævar Geir Sigurjónsson

_ _ _

JAKOB SKÝTUR Í STÖNG
Þegar hálftími var liðinn sendi Ívar Örn Árnason fyrir markið, Jakob Snær Árnason var augnabliki á undan varnarmanni í boltann en skot hans úr markteignum fór í stöngina og aftur fyrir. Margir voru spenntir – ekki síst boltastrákurinn ...

_ _ _

KEFLVÍKINGAR MINNKA MUNINN
Eftir tæplega tvær mínútur í seinni hálfleik skoruðu Keflvíkingar aftur. Sami Kamel tók aukaspyrna skammt utan vítateigs vinstra megin, sendi fyrir markið og þar skallaði Nacho Heras boltann í markið. 

Ljósmynd: Sævar Geir Sigurjónsson
_ _ _

ANNAÐ MARK HALLGRÍMS
Undir lokin, á 88. mín., þegar gestirnir lögðu allt kapp á sóknarleikinn gulltryggðu KA-strákarnir sigurinn. Elfar Árni sendi út til hægra á Pætur Petersen sem lék inn á teig og sendi þvert fyrir markið þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson var illa valdaður og skoraði.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.