Fréttir
Jómfrúrferð Niceair til Kaupmannahafnar
02.06.2022 kl. 09:30
Fyrsti farþeginn, Þjóðverjinn Tino Oelker, skannar brottfararspjaldið áður en þota Niceair hélt í jómfrúrferðina í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Niceair er komið á flug!
Þota akureyrska flugfélagsins Niceair lagði af stað í jómfrúrferðina í morgun. Hún tók á loft frá Akureyrarflugvelli þegar klukkuna vantaði stundarfjórðung í átta og stefnan var tekin á Kastrup flugvöll í Kaupmannahöfn.
Þjóðverjinn Tino Oelker var fyrsti farþeginn sem skannaði brottfararspjaldið; hann hefur árum saman stundað það að vera farþegi í fyrstu ferð nýs flugfélags hvarvetna í heiminum, að fara fyrstu ferð til eða frá nýjum flugvelli og að ferðast með óvenjulegum flugvélum! Oelker kom sérstaklega til landsins í því skyni að fara jómfrúrferð Niceair.
Akureyri.net birtir viðtal við Tino Oelker síðar og fjallar nánar um þau tímamót í sögu Akureyrar að Niceair sé komið á flug.