Fara í efni
Fréttir

Hokkíliðin fengu á baukinn í Egilshöll

Jóhann Már Leifsson fagnar marki í Skautahöllinni á Akureyri. Hann var eini liðsmaður SA sem skoraði mark í leikjum dagsins þegar hann skoraði úr víti seint í fyrri leik tvíhöfðans. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Bæði íshokkílið SA fengu á baukinn í Egilshöllinni í dag og í kvöld og koma tómhent heim úr höfuðborginni. Karlalið SA tapaði með fjögurra marka mun og er komið niður í 3. sæti Toppdeildarinnar. Kvennaliðið er áfram í 2. sæti, nú fjórum stigum á eftir Fjölni.

Markaregn í restina

Ekkert var skorað í fyrstu tveimur leikhlutunum í viðureign karlaliða SA og Fjölnis, fyrri leik tvíhöfðans, en mörkunum rigndi í lokaþriðjungnum. Fjölnismenn skoruðu þrjú mörk á innan við fimm mínútum snemma í þriðja leikhlutanum og svo það fjórða þegar rúmar sjö mínútur voru eftir og fimmta markið þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Jóhann Már Leifsson minnkaði muninn fyrir SA úr víti skömmu síðar.

Eftir þetta tap er lið SA komið í þá sjaldséðu stöðu að vera í 3. sæti deildarinnar. SR er á toppnum með 12 stig, Fjölnir fór í níu stig í dag og SA situr í 3. sætinu með sex stig úr fjórum leikjum. Fjölnismenn hafa leikið tveimur leikjum meira.

Sjaldséð markaleysi SA-kvenna

Kvennaliði SA tókst ekki að koma pökknum í mark Fjölniskvenna, sem er afar sjaldgæft hjá liðinu. Fróðlegt að vita hvenær liðið spilaði síðast leik án þess að skora.

Markalaust var eftir fyrsta leikhluta í viðureign kvennaliða SA og Fjölnis, en Fjölnir náði forystunni um miðjan annan leikhluta og bætti við öðru marki á lokasekúndum leikhlutans. Þriðja mark Fjölnis kom svo þegar rúm mínúta var eftir af leiknum, en SA tókst ekki að svara. 

Lið SA er þó áfram í 2. sæti þar sem þessi tvö lið hafa náð góðu forskoti á SR. Fjölnir hefur nú fjögurra stiga forskot á SA. Fjölnir er með 15 stig, SA 11 og SR 1.