Fara í efni
Fréttir

Heimsóknir og bæjarferðir

EYRARPÚKINN - 12

Þó meðlæti sé ekki skorið við nögl hjá vinkonum móður minnar verð ég þreyttur á heimsóknum þeim og bæjarferðum.

Þannig er ég að niðurlotum kominn þegar mamma mælir út stranga í vefnaðarvörudeild Kaupfélagsins með stóra stiganum breiða með handriðinu sem ég renndi mér á og eins stend ég sár upp að hnjám í Drífu og Fróðasundi.

Eru þó saumakonurnar manni velviljaðar og bryð ég brjóstsykurinn.

En ferðir þessar reyna á biðlundina og eitt sinn eftir heimsókn í Oddeyrargötu 11 þar sem ég stúdera hýjung Heiðu og Billu og les Varðturninn af vaxandi sljóleika hangi ég svo í pilsum móður minnar að hún knýr dyra hjá pabba hans Steina í Hólabrautinni og vel ég mér rauðan trébíl með krana úr hendi hagvirkjans Þórarins og held sáttur heim.

Spillir ekki að Eva spákona Eyland í hvíta húsinu á horni Krabbastígs og Munkaþverárstrætis spáir svo vel fyrir mömmu í meðhafðan kaffibolla hennar að hvergi sjást ský á himni.

Það er gluggaveður og rykið svíður í augum í Geislagötu.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Heimsóknir og bæjarferðir er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.