Fara í efni
Fréttir

Gosdrykkjan

EYRARPÚKINN - 23

Ég var ekki hár í lofti þegar Nonni og Júnni sprengdu mig á gosdrykkju á Gleráreyrum.

Í krapahríð paufaðist ég Eyrarveginn á brúnum galla. Var kallaður Skógarbjörninn þegar ég klæddist þeim samfestingi og hreykinn af nafngiftinni.

Dimmt í verksmiðju Öls og goss, enginn að vinna og saggi í bragganum og rétt sáum við til að slokra gosið og mátti ég þamba að vild.

Datt strákum í hug að mæla hvað bangsi gæti drukkið og þambaði ég þangað til að ég ældi kolsýrðu gutlinu.

Þungur á mér rassinn heim og ropaði í hverju spori. Stubbur á brúnum galla, rauðum stígvélum og húfu. Hélt Skógarbjörninn í höndina á Nonna og var óglatt.

Mamma ekki hrifin þegar hún frétti þetta og lét Þormóð heyra það.

Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.

  • Gosdrykkjan er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.