Taka vonandi yfir með „sómasamlegum hætti“
Bæjarráð Akureyrar harmar þann drátt sem orðið hefur á yfirtöku ríkisins á rekstri Öldrunarheimila Akureyrar (ÖA). Þetta kemur fram í bókun sem samþykkt var á fundi ráðsins í morgun. Ríkið átti að taka við rekstrinum um áramót en ítrekað er í bókuninni að nýlegur samningur þess efnis að bærinn sjái áfram um rekstur heimilanna fyrstu fjóra mánuði ársins sé tímabundinn og þess er vænst að SÍ gefist færi á að ljúka yfirtöku rekstrar ÖA „með sómasamlegum hætti,“ eins og það er orðað.
Eins og komið hefur fram á Akureyri.net á ákváðu bæjaryfirvöld að verða við beiðni Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og sjá rekstur heimilanna til aprílloka, með því skilyrði að kostnaður bæjarfélagsins yrði enginn. Ríkið borgar því brúsann.
Í bókun bæjarráðs kemur fram að heilsbrigðisráðherra og SÍ hafi verið tilkynnt með bréfu dagsettu 5. maí að sveitarfélagið myndi ekki óska eftir endurnýjun á rekstrarsamningi um ÖA, sem rynni út núna um áramótin. Var bréf þetta byggt á ákvörðun bæjarráðs frá 30. apríl.
„Í kjölfarið hófust viðræður milli aðila og á fundi forstjóra SÍ og forstjóra Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN), þann 18. ágúst, með fyrirsvarsmönnum Akureyrarbæjar og ÖA ásamt trúnaðarmönnum og forsvarsmönnum stéttarfélaga starfsmanna, var tilkynnt formlega að HSN hefði verið falið að taka yfir rekstur ÖA frá og með næstu áramótum. Nú þegar árið er að renna sitt skeið hefur lítið þokast í málinu af hálfu ríkisins þrátt fyrir ítrekanir og eftirrekstur af hálfu Akureyrarbæjar,“ segir í bókun bæjarráðs.
„Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin telur bæjarráð rétt, með hagsmuni skjólstæðinga og starfsfólks ÖA í huga, að samþykkja framlagðan viðauka við þjónustusamning um tímabundna framlengingu þjónustu til loka aprílmánaðar 2021. Bæjarráð ítrekar hins vegar að hér er um tímabundinn samning að ræða og væntir þess að með því gefist SÍ færi á að ljúka yfirtöku rekstrar ÖA með sómasamlegum hætti.“