Fara í efni
Fréttir

Gömlu sorptunnurnar í önnur sveitarfélög

Gömlu sorptunnurnar eru í eigu Terra og verða nýttar annars staðar á landinu. Nýju sorptunnurnar eru eign Akureyrarbæjar.

Sorptunnuskipti standa nú yfir á Akureyri þar sem eldri tunnum er skipt út fyrir þrjár glænýjar tunnur við hvert heimili. En hvað verður um allar gömlu sorptunnurnar?

Leigðu tunnur áður en eiga núna

Samkvæmt fyrri sorphirðusamningi Terra við Akureyrarbæ átti Terra að skaffa tunnurnar. Nýr samningur gerir hins vegar ráð fyrir því að bærinn sjái sjálfur um tunnurnar en samkvæmt upplýsingum frá Ísaki Má Jóhannessyni, verkefnastjóra úrgangs- og loftslagsmála hjá Akureyrarbæ, kom betur út fyrir bæinn að kaupa eigin tunnur en leigja þær af Terra. Að sögn Helga Pálssonar, rekstrarstjóra Terra á Norðurlandi, fara því gömlu tunnurnar aftur til Terra þar sem þær verða áfram nýttar annars staðar. „Já ég vænti þess að lunginn af þessum tunnum komist í notkun innanlands.”

Átta til níu þúsund tunnur

Helgi segir sveitarfélög landsins vera mislangt komin með innleiðingu á nýrri sorpflokkun og þá velji sveitarfélögin misjafnar lausnir. Tunnurnar sem verða ekki lengur í notkun á Akureyri geta því vel hentað öðrum sveitarfélögum. Nothæfar tunnur verða því þrifnar, hjólin tekin undan þeim og þeim staflað upp. Segir Helgi að þetta séu um 8-9 þúsund tunnur sem um ræðir sem tilbúnar verða til notkunar á nýjum slóðum.

  • Meira um sorpflokkun á Akureyri:

Hvers vegna þarf að flokka í þrjár tunnur?

Endurvinnslutunnan ekki tæmd í sumar