Fara í efni
Fréttir

Frábært fyrsta ár í Skógarböðunum

Skógarböðin við rætur Vaðlaheiðar eru vinsæl. Myndin er tekin áður en baðstaðurinn var opnaður í maí 2022. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hagnaður Skógarbaðanna í fyrra nam 112 milljónum króna að því er fram kemur í frétt á vef Viðskiptablaðsins í gærkvöld.

Skógarböðin voru opnuð í maí í fyrra og þessi góða afkoma því afrakstur aðeins rúmra sjö rekstrarmánuða. Í fréttinni á vb.is kemur fram að sala félagsins hafi numið 466 milljónum króna á árinu og Skógarböðin þar með orðin að einu veltuhæsta baðlóni landsins strax á fyrsta ári. Áætlanir gerðu ráð fyrir 50 þúsund gestum fyrsta árið og að gestakomur yrðu síðar um 75-80 þúsund á ári. 

Stofnendur og eigendur Skógarbaðanna eru hjónin Sigríður María Hammer og Finnur Aðalbjörnsson, en næststærsti hluthafi er félagið Bjarnason Holding ehf., sem er í eigu Birkis Bjarnasonar, atvinnumanns í knattspyrnu.

Nánari umfjöllun um Skógarböðin og viðtal við Finn Aðalbjörnsson eru í prentútgáfu Viðskiptablaðsins í dag.