Fara í efni
Fréttir

Fljúga þrisvar í viku til Kaupmannahafnar

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Niceair mun bjóða upp á flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar þrisvar í viku frá og með 1. júní. Til þessa hefur félagið flogið tvisvar í viku, á fimmtudögum og sunnudögum, en í sumar verður einnig flogið á þriðjudögum.

„Það hefur sýnt sig að Kaupmannahöfn er afar vinsæll áfangastaður Íslendinga og vaxandi fjöldi notar Kastrup sem tengiflugvöll um alla Evrópu. Frá Kaupmannahöfn er flogið til meira en 200 áfangastaða um allan heim og þetta nýtir nú þegar um þriðjungur farþega okkar,“ segir Helgi Eysteinsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðsmála Niceair.

Flogið er á morgnana klukkan 7.45 „sem gefur góðan tíma til að hugga sig á Kastrup áður en flugið er tekið lengra síðdegis. Hér munar auðvitað mestu um að farþegar okkar eru nú að komast á lokaáfangastað innan eins dags, í stað þess að leggja land undir fót á Íslandi og gista til næsta dags til að taka flugið. Gamli höfuðstaðurinn er síðan ekki síst vinsæll sem frábær helgarferðastaður,“ segir Helgi.