Fermingarbörn færri í ár en í fyrra

Í ár verða ívið færri börn fermd á Akureyri en í fyrra. Um 100 börn verða fermd í Akureyrarkirkju og 76 börn Glerárkirkju.
„Það eru sjö fermingardagar í boði í Akureyrarkirkju og flest eru börnin í athöfnunum 26. apríl, 31. maí og 7. júní,“ segir Aðalsteinn Þorvaldsson, prestur við Akureyrarkirkju. Í ár verða um 120 börn fermd bæði í Akureyrarkirkju og kirkjum fram í sveit og eru þau ívið færri en í fyrra.
Lítill árgangur í Þorpinu
„Árgangurinn í ár er mjög lítill í Þorpinu eða um 76 fermingarbörn. En við nýttum því tækifærið og erum að prófa aðeins öðruvísi fermingarfræðslu eins og sólarhringsdans og fræðslumaraþon núna 21. mars þar sem fermingarbörnin dansa og vaka í sólarhring til að safna fyrir vatnsbrunnum í Afríku o.s.frv.,“ segir Hildur Björk Hörpudóttir, prestur í Glerárprestakalli, við Akureyri.net. Aðalfermingardagarnir þar verða 17. og 25. maí en alls verða fimm fermingarmessur í Glerárprestakalli.
Samtals verða níu fermingarmessur í Akureyrarprestakalli. Í Akureyrarkirkju verða þær eftirfarandi daga: 26.04; 31.05 (kl. 11 og 14); 07.06 (kl. 11 og 14), 08.06 hvítasunna (kl. 11 og 14). Í Möðruvallakirkju verður fermingarmessa 17.04 skírdag kl. 14 og í Grundarkirkju 08.06 hvítasunnu kl. 11.