Fara í efni
Fréttir

16 „raðgiftingar“ í Glerárkirkju í dag

Sandra Rut og Stefán Þór nýttu tækifærið og létu pússa sig saman í Glerárkirkju í dag. Með þeim á myndinni er dóttirin Gabríela 11 ára og séra Hildur Björk Hörpudóttir í baksýn. Mynd: Þorgeir Baldursson

Alls voru 16 giftingar framkvæmdar í Glerárkirkju í dag þegar prestar á Akureyri leiddu saman hesta sína og buðu upp á raðgiftingar í kirkjunni. Hver athöfn tók aðeins korter og svo var brúðhjónunum boðið upp á freyðivín í forstofunni og aðgang að myndabás áður en næsta par setti upp hringa.

 

Myndabás var í boði í anddyri kirkjunnar þar sem brúðhjón gátu stillt sér upp að athöfn lokinni ... Mynd: SNÆ

Saman í 15 ár en enn ógift

Sandra Rut Pétursdóttir og Stefán Þór Þengilsson voru eitt þeirra para sem nýttu tækifærið og létu pússa sig saman í dag en með þeim var mætt dóttirin Gabríela Mjöll, sem var hringaberi. Sonurinn, Aron Ásberg, sem er eins og hálfs árs gamall var hjá dagmömmu á meðan.  „Við erum búin að vera saman í rúm 15 ár og alltaf á leiðinni að gifta okkur en aldrei hefur einhvern veginn verið rétti tíminn. Svo sáum við þetta auglýst og stukkum á tækifærið, “ segir Sandra Rut. 

- En hvað hefur hindrað?

„Bara frestunarárátta held ég. Og líka af því að við höfum ekki viljað risa stórt brúðkaup.  Þetta er bara þægilegt, svo af hverju ekki?“ segir Sandra Rut og bætir við að ef þetta tækifæri hefði ekki boðist þá hefðu þau líklega endað hjá sýslumanninum. „En þetta er miklu skemmtilegra.“


... og útkoman úr myndabásnum hefur þá verið nokkurn vegin svona! Mynd: Þorgeir Baldursson 

Sessunautar í framhaldsskóla

Pörin sem gefin voru saman í Glerárkirkju í dag voru á ýmsum aldri og með mislöng sambönd að baki. Þrjú þeirra höfðu áður látið gefa sig saman hjá sýslumanni en notuðu tækifærið og endurnýjuðu heitin í kirkju. Í tilfelli Stefáns Þórs og Söndru Rutar er langt síðan þau bundust órjúfanlegum böndum en þau kynntust í Verkmenntaskólanum á Akureyri. „Við sáumst fyrst í Pennanum á Akureyri en þá vorum við bæði að versla bækur fyrir framhaldsskólann. Svo fer ég í skólastofuna og sé laust sæti og sest þar niður og enginn í sætinu við hliðina. En svo var hún með sætið við hliðina á mér,“ rifjar Stefán upp. „Þannig að við sátum saman í Verkmenntaskólanum og fórum eitthvað að spjalla og eitt leiddi af öðru“, bætir Sandra við.

Svona var stemmingin í Glerárkirkju í dag: freyðivín, glimmer og brúðkaupstertur. Mynd: SNÆ

Bað um frí í vinnunni til að giftast

Þó fyrirvarinn hafi verið skammur, aðeins rétt rúm vika, hefðu hjónin varla getað valið táknrænni dag til þess að láta pússa sig saman, þ.e.a.s dag ástarinnar, Valentínusardag. Dóttirin Gabríela var alsæl með ráðahaginn en sagði þó að hún hefði skipulagt þetta öðruvísi. „Ég myndi hafa haft gesti og hvítan kjól, en hún er í svaka fínum kjól,“ segir Gabríela. Hin nýpússuðu hjón viðurkenndu að það væri pínu sérstakt að gifta sig á virkum degi. Sandra var í fríi en Stefán þurfti að biðju um frí úr vinnunni en hann vinnur hjá málarafyrirtækinu Betri fagmenn. „Það var bara hlegið að mér fyrst þegar ég sagðist þurfa frí úr vinnu eftir hádegi til þess að gifta mig,“ segir Stefán. Framundan er rólegt kvöld heima hjá fjölskyldunni. „Við ætlum að borða eitthvað skemmtilegt í kvöld heima og leyfa Gabríelu að ráða því. Svo ætlar fjölskyldan að kíkja á okkur seinnipartinn,“ segir Sandra. 

Akureyri.net óskar hinu nýgifta pari til hamingju með daginn, sem og öllum öðrum sem nýttu tækifærið í Glerárkirkju í dag til þess að láta pússa sig saman.

Prestarnir sem raðgiftu í Glerárkirkju í dag. Frá vinstri, Sindri Geir Óskarsson, Hildur Björk Hörpudóttir, Hildur Eir Bolladóttir og Aðalsteinn Þorvaldsson. Mynd: Þorgeir Baldursson. Jóhanna Gísladóttir ætlaði að taka þátt en lagðist í flensu og átti því ekki heimangengt.