Fara í efni
Fréttir

Andrea klúbbmeistari þriðja árið í röð

Andrea Ýr vippar inn á flöt á 2. braut á síðasta degi Akureyrarmótsins. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Andrea Ýr Ásmundsdóttir sigraði með miklum yfirburðum á meistaramóti Golfklúbbs Akureyrar sem lauk í gær og er því Akureyrarmeistari þriðja árið í röð og í fimmta skipti alls.

Andrea Ýr hafði forystu frá upphafi, lék lang best allra fyrstu þrjá dagana en lokadaginn bætti Kara Líf Antonsdóttir sig verulega og lék betur en keppinautarnir. Hún fór völlinn á aðeins einu höggi yfir pari í gær, 72 höggum, þremur höggum minna en Akureyrarmeistarinn. Kara Líf bætti sig um 11 högg frá því deginum áður og notaði 21 höggi minna síðasta dag en á öðrum keppnisdegi mótsins.

Kara Líf, sem er 18 ára, er systir Lárusar Inga Antonssonar sem varð annar í meistaraflokki karla á mótinu.

Lilja Maren Jónsdóttir, sem varð í þriðja sæti er aðeins 15 ára. Til gamans má geta þess að faðir hennar, Jón Steindór Árnason, varð Akureyrarmeistari í golfi fyrir tæpum tveimur áratugum, árið 2005. Afi hennar, Árni Sævar Jónsson, sá frábæri golfkennari sem er nýlátinn,  fagnaði einnig Akureyrarmeistaratitli einu sinni. Það var árið 1975, nákvæmlega 30 árum áður en Jón Steindór fetaði í fótspor föður síns.

Sólin skein alla keppnisdagana og hlýtt var í veðri en sterk sunnanátt setti mikinn svip á Akureyrarmótið að þessu sinni. Fyrstu þrjá dagana gerði rokið keppendum erfitt fyrir, en aðstæður voru mun betri í gær þar sem vind hafði lægt mikið. 

Þrír keppendur voru í meistaraflokki kvenna. Skorið var sem hér segir: 

  • 300 – Andrea Ýr Ásmundsdóttir
    (77 - 72 - 76 - 75) samtals 16 yfir pari
  • 332 – Kara Líf Antonsdóttir
    (84 - 93 -83 - 72) samtals 48 yfir pari
  • 336 – Lilja Maren Jónsdóttir
    (82 - 84 - 82 - 88) samtals 52 yfir pari

Fyrsti keppnisdagur

Annar keppnisdagur

Þriðji keppnisdagur

Kara Líf Antonsdóttir lék Jaðarsvöll á einu höggi undir pari í gær, á lokadegi Akureyrarmótsins. 

Lilja Maren Jónsdóttir púttar á lokahring Akureyrarmótsins í gær.

Smellið hér til að sjá nöfn efstu kylfinga í öllum flokkum Akureyrarmótsins.