Fara í efni
Fréttir

Akureyri rekur ÖA út apríl – ríkið borgar

Akureyrarbær rekur Öldrunarheimili Akureyrarbæjar (ÖA) fyrstu fjóra mánuði næsta árs, að beiðni Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Bærinn sagði upp samningi um reksturinn síðastliðið vor og rennur hann út um áramót, en fallist var á beiðni SÍ og í gær skrifað undir framlengingu til fjögurra mánaða frá áramótum. Að þeim tíma loknum kemur Akureyrarbær ekki frekar að rekstri heimilanna.

Samkvæmt heimildum Akureyri.net verður reksturinn þessa fjóra mánuði sveitarfélaginu algjörlega að kostnaðarlausu. Sjúkratryggingar borga brúsann. Bæjaryfirvöld munu hafa sett það sem skilyrði fyrir því að framlengja samninginn til aprílloka.

Það var í síðustu viku sem SÍ óskaði eftir því við Akureyrarbæ að sveitarfélagið héldi áfram rekstri Öldrunarheimila Akureyrar tímabundið. Fallist var á það, í ljósi fordæmalausra aðstæðna í miðjum heimsfaraldri, eins og það var orðað við blaðamann. Bæjaryfirvöld hafa verið ósátt síðustu ár við að fjárframlög frá ríkisvaldinu hafa hvergi nærri dugað fyrir rekstri heimilanna, sem er þó ekki eitt af lögbundnum hlutverkum sveitarfélaga. Fjárhagsáætlun Akureyrar gerir ráð fyrir að 500 milljónir króna sparist á næsta ári við að rekstur ÖA færist yfir til ríkisins.

Viðræður við Sjúkratryggingar Íslands hafa staðið yfir frá því í sumar, eða frá því að Akureyrarbær sagði samningnum upp. Ekki náðist að ljúka yfirfærslunni frá sveitarfélaginu til ríkisins í tæka tíð og þykir bæjaryfirvöldum það afar miður, samkvæmt heimildum, en þau hafa frá upphafi lagt ríka áherslu á að samningar um yfirfærsluna gengju greiðlega fyrir sig.