Fréttir
Ævintýrið „Sjally Pally“ að ná hámarki
24.02.2024 kl. 14:00
Matthías Örn Friðriksson til vinstri, einn besti pílukastari landsins og fyrrverandi knattspyrnumaður með Þór, og Davíð Örn Oddsson gera klárt í Sjallanum í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Stærsta pílumót í sögu Akureyrar hófst í Sjallanum í gær og lýkur þar í kvöld. 160 keppendur skráðir til leiks og til marks um hve píluíþróttin er orðin vinsæl seldust aðgöngumiðar á úrslitakvöldið upp nánast á svipstundu. Keppt var um allt hús í gær en í kvöld sitja 270 áhorfendur við borð í aðalsalnum og fylgjast með útsláttarkeppninni sem fram fer á sviðinu.
Davíð Örn Oddsson, formaður píludeildar Þórs og Halldór Kristinn Harðarson, staðarhaldari í Sjallanum, töluðu í léttum dúr um Sjally Pally með tilvísun í Ally Pally, samkomuhúsið í London þar sem heimsmeistaramótið fer fram árlega.
Bestu píluspilarar landsins eru á meðal keppenda, þar á meðal Matthías Örn Friðriksson sem er á myndinni að ofan. Hann er fyrrverandi leikmaður Þórsliðsins í knattspyrnu og til gamans má geta þess að það var Matthías sem gerði fyrsta markið á Þórsvellinum eftir að hann var tekinn í notkun á ný eftir mikla uppbyggingu á félagssvæðinu 2009.
Matthías heldur úti pílusíðunni Live Darts Iceland og streymdi frá keppni gærdagsins á miðlum sínum. Í kvöld verða starfsmenn Exton á staðnum og taka upp útsláttarkeppnina sem hefst klukkan 19.00. Bein útsending verður á miðlum Matthíasar; slóðirnar eru þessar:
Frétt Akureyri.net um mótið: