Ætla að nýta glatvarma frá TDK í Krossanesi
Norðurorka og TDK, sem rekur aflþynnuverksmiðju við Krossanes, hafa undirritað samning um nýtingu glatvarma frá verksmiðjunni. Fyrirtækin undirrituðu viljayfirlýsingu í mars í fyrra og byggir samningurinn á henni.
Akureyri.net hefur áður fjallað um þessi áform, meðal annars í lokagrein í greinaflokki um vatn í nóvember 2023.
Glatvarmi er ónýttur varmi eða orka sem hægt er að fanga og virkja í stað þess að hann streymi frá fyrirtækjum. Sem dæmi um slíkt er að í verksmiðju TDK er gríðarlegu magni af sjó dælt upp til að kæla vélar og kerfi verksmiðjunnar, en honum er svo dælt heitum út í hafið að nýju. Áformin með samningnum ganga út á að nýta þann varma sem þarna fer beinlínis til spillis til upphitunar á bakrásarvatni úr kerfum Norðurorku.
Með nýtingu glatvarma má segja að til verði „virkjun“ sem muni geta skilað allt að 10 MW í afli inn í kerfið til að byrja með, að því er fram kemur í frétt Norðurorku um samninginn. Til samanburðar má benda á að það er um einn tíundi hluti af hámarksafli hitaveitunnar á Akureyri, sem er um 100 MW.
Orkunotkun eykst um 25 GWst á ári
„Gert er ráð fyrir að samsvarandi orkuvinnsla sé um 90 GWst á ári en varmaorka sem hitaveitukerfið flutti til notenda árið 2023 var 622 GWst. Aukning í orkunotkun milli ára hefur verið um 25 GWst undanfarin ár sem meðal annars kemur til vegna þeirrar miklu uppbyggingar sem hefur átt sér stað á starfssvæði Norðurorku. Gert er ráð fyrir að orkuvinnsla frá TDK muni aukast í takt við aukna notkun þar sem orkuflutningurinn takmarkast af magni þess bakrásarvatns sem er í boði en ný hverfi hafa verið og verða byggð upp með bakrásarkerfi. Einnig mun Norðurorka leita leiða til að auka söfnun bakrásarvatns í núverandi kerfum. Framkvæmdir eru hafnar og stefnt er að því að bakrásarvatn, upphitað í verksmiðju TDK, muni fara að streyma inn í kerfi Norðurorku í október á þessu ári,“ segir ennfremur í frétt Norðurorku.
Bakrásarvatn hitað upp með rafmagni í dag
Bakrásarvatn er einfaldlega heitt vatn sem rennur frá ofnakerfum húsa. Þessu vatni er nú þegar safnað að hluta, hitað upp aftur með raforku og komið aftur inn á kerfið. Raunar er einnig til búnaður til að hita upp bakrásarvatn með olíu, ef á þyrfti að halda í algjörri neyð. Tæki og búnaður til söfnunar bakrásarvatns og nýtingar að nýju hafa lengi verið til staðar hjá Norðurorku og tengist það meðal annars erfiðleikum sem komu fram við upphaf hitaveitunnar.
Frá framkvæmdum á mótum Mímisbraut og Þórunnarstrætis, skammt frá kyndistöð Norðurorku. Mynd: Haraldur Ingólfsson.
Í kyndistöð Norðurorku við Þórunnarstræti eru tvær mjög stórar varmadælur sem hita upp bakrásarvatn áður en því er skilað aftur inn á kerfið. Þar er verið að nota rafmagn til upphitunar bakrásarvatns, en verkefnið sem nú er í bígerð í samstarfi Norðurorku og TDK gengur út á að nýta heitt vatn og orku sem í dag streymir frá verksmiðjunni ónýtt, til að hita upp bakrásarvatn í meira mæli.
Hitaveitan komin að þolmörkum
„Samstarfið við TDK er mikilvægur þáttur í öflun á heitu vatni og ef vel tekst til með nýtingu á glatvarma frá verksmiðjunni verður það mikil lyftistöng í rekstri hitaveitunnar. Undanfarin misseri og ár hefur Norðurorka ítrekað vakið athygli á því að hitaveitan sé komin að þolmörkum. Meira hefur verið lagt í rannsóknir og þurft að leita lengra í leit að orkustraumum, með tilheyrandi kostnaði, en um er að ræða tímafrek ferli sem krefjast mikils undirbúnings. Áfram verður haldið af fullum krafti í þeim tilgangi að sinna orkuþörf stækkandi samfélags,“ segir í frétt Norðurorku.