Aðflugsljós sett upp norðan Leiruvegar
Ný aðflugsljós fyrir Akureyrarflugvöll verða sett upp á landfyllingu við Leiruveg. Breyting á deiliskipulagi vegna þessa var auglýst í febrúar og frestur að gera athugasemdir við auglýsinguna rennur út í dag.
Tillagan að skipulagsbreytingunni gerir ráð fyrir lítilli landfyllingu sunnan Leiruvegar en tæplega 200 metra langri í norður frá veginum. Aðflugsljós verða sett upp í átta ljósasamstæðum með 30 metra millibili.
„Tilgangur með landfyllingunni er að setja upp aðflugsljós fyrir Akureyrarflugvöll til að uppfylla kröfur í reglugerð og bæta aðflugsskilyrði úr norðri og auka flugöryggi. Með uppsetningu búnaðarins eykst einnig öryggi í samgöngum við landið í aðstæðum eins og í Eyjafjallajökulsgosinu 2010. Þá gegndi Akureyrarflugvöllur mikilvægu hlutverki sem varaflugvöllur Keflavíkurflugvallar.,“ segir í skipulagstillögunni.
„Aðflugsljósin verða í 4,8 m hæð yfir miðlínu Leiruvegar næst veginum en lækka fjær veginum, nyrstu ljósin verða 1,9 m á hæð. Í hverri ljósasamstæðu verða 5 ljós og á milli hverrar samstæðu verða 30 m. Ljós verða einungis kveikt á meðan aðflugi stendur og blikka ekki, heldur lýsa stöðugt.“
Á gildandi aðalskipulagsuppdrætti 2018-2030 er gert ráð fyrir landfyllingu undir aðflugsljós við norðurenda flugbrautarinnar og í norður út frá Leiruvegi, framkvæmdin er því í samræmi við aðalskipulag Akureyrar, að því er segir í tillögunni.
Hægt er að skila inn athugasemdum og ábendingum um skipulagstillöguna á netfangið skipulag@akureyri.is. Frestur til þess rennur út í dag.
Svæðið eins og það er núna.
Svæðið eins og það verður eftir að nýja landfyllingin bætist við.