Fara í efni
Fréttir

UPPFÆRT Airbus vél Icelandair lendir kl 10.44

Airbus flugvélin nýja, Esja, lendir á Keflavíkurflugvelli í fyrsta skipti á þriðjudaginn var. Mynd: Icelandair

UPPFÆRT - Vélin fór seinna frá Keflavík en áætlað var. Lendir á Akureyri 10.44.

Glæný Airbus flugvél Icelandair fer í þjálfunarflug um landið í dag og gert ráð fyrir að hún lendi á Akureyri klukkan 10.15 fyrir hádegi. Margir Akureyringar eru miklir flugáhugamenn og örugglega áhugasamir um að fylgjast með vélinni koma.

Vélin verður í um það bil þrjá stundarfjórðunga á Akureyrarflugvelli, fer í loftið á ný um kl. 11.00 og lendir á Egilsstöðum hálftíma síðar. Þaðan liggur leiðin síðan til Keflavíkur á ný.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair gæti áætlunin breyst eins og oft er með þjálfunarflug. Áhugasömum er því bent á að best sé að fylgjast með á FlightRadar og slá þá inn flugnúmerið FI5100.

Flugvélin er af gerðinni A321LR og er fyrsta Airbus flugvél í 87 ára sögu Icelandair. Hún er með skráningarnúmerið TF-IAA, ber nafnið Esja og kom til landsins í fyrsta sinn síðastliðinn þriðjudag. Icelandair á von á þremur vélum sömu tegundar til viðbótar fyrir sumarið 2025.

Nánar um Airbus flugvélina