Tveir meistaratitlar í blaki í vikunni?

Í vikunni gæti dregið til tíðinda í blakinu, bæði í kvenna- og karlaflokki. Bæði lið KA eru með 2-0 forystu í úrslitaeinvígjunum um Íslandsmeistaratitlana og geta með sigrum á þriðjudag og miðvikudag tryggt sér titlana. Aðrir leikir í vikunni eru í fótboltanum, Þór/KA með heimaleik í dag og útileik á sunnudag og KA með heimaleik á sunnudag.
Fjórir heimaleikir hjá Akureyrarliðum í vikunni, tveir í blaki og tveir í fótbolta.
MÁNUDAGUR - fótbolti
Þór/KA fór vel af stað í fyrstu umferð Íslandsmótsins, Bestu deildarinnar, með 4-1 útisigri á Víkingi. Tindastóll vann sömuleiðis sinn fyrsta leik þegar FHL mætti á Krókinn. Nú er komið að því að Norðurlandsliðin mætist, heimaleikur hjá Þór/KA og hann fer fram í Boganum.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu
Boginn kl. 16
Þór/KA - Tindastóll
ÞRIÐJUDAGUR - blak
Kvennalið KA í blaki getur bætt enn einum bikarnum í safnið á þriðjudag þegar þriðji leikurinn í úrslitaeinvígi liðsins við Völsung fer fram. KA hefur unnið tvær fyrstu viðureignirnar í einvíginu með þremur hrinum gegn engri og virðist fátt geta komið í veg fyrir að liðið landi Íslandsmeistaratitlinum.
- Íslandsmót kvenna í blaki, Unbroken-deildin, úrslitaeinvígi, leikur 3
KA-heimilið kl. 20
KA - Völsungur
MIÐVIKUDAGUR - blak
Karlalið KA er í sömu stöðu og kvennaliðið nema hvað önnur viðureignin í einvígi liðsins við Þrótt R. var heldur jafnari en aðrar viðureignir í þessum úrslitaeinvígum. KA vann fyrsta leikinn með þremur hrinum gegn engri, en annan leikinn með þremur hrinum gegn tveimur á útivelli. KA getur engur að síður landað Íslandsmeistaratitlinum með sigri á Þrótti á miðvikudag.
- Íslandsmót karla í blaki, Unbroken-deildin, úrslitaeinvígi, leikur 3
KA-heimilið kl. 20
KA - Þróttur R.
SUNNUDAGUR - fótbolti
Fótboltinn er farinn að rúlla, tveimur umferðum lokið í Bestu deild karla og sú þriðja hefst núna í vikunni. KA hefur eitt stig að loknum fyrstu tveimur umferðunum, gerði 2-2 jafntefli við KR á heimavelli í fyrstu umferðinni, en mátti þola 4-0 tap fyrir Víkingum á útivelli í 2. umferð. Nú er komið að Hafnfirðingum að heimsækja Akureyri. FH er í neðsta sæti deildarinnar og eina liðið án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar.
- Íslandsmót karla í knattspyrnu, Besta deildin
KA-völlur (Greifavöllur) kl. 16:15
KA - FH
- - -
Keppni í Bestu deild kvenna hófst óvenju snemma í ár og markast það af þátttöku landsliðsins í lokamóti EM í sumar. Hlé verður á deildinni í um fimm vikur frá 21. júní. Það er því komið að þriðju umferð deildarinnar næstkomandi sunnudag, 27. apríl, þegar Þór/KA sækir Val heim að Hlíðarenda.
Þór/KA byrjaði vel með 4-1 útisigri á Víkingi í fyrstu umferðinni, en Valur gerði 0-0 jafntefli við FH. Þegar þetta er ritað og birt á mánudegi er leikdagur hjá báðum liðunum, þegar Þór/KA tekur á móti Tindastóli og Valur sækir Austfirðinga í FHL heim í Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði.
- Íslandsmót kvenna í knattspyrnu, Besta deildin
Valsvöllur (N1 völlurinn) að Hlíðarenda kl. 17
Valur - Þór/KA