Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Þrautseigjusigur Þórs/KA á Tindastóli

Þolinmæði þrautir vinnur allar, segir máltækið. Þrátt fyrir að lenda undir á upphafsmínútunum og ganga illa að nýta færin lengst af lögðu leikmenn Þórs/KA ekki árar í bát heldur héldu áfram að reyna allt til enda. Dropinn holar steininn og boltinn endar í netinu, 2-1 sigur staðreynd. Þessi mynd sýnir líklega bæði fögnuð og létti sem markið færði leikmönnum. Mynd: Ármann Hinrik.

Þór/KA vann annan sigur sinn í Bestu deildinni þegar grannarnir frá Sauðárkróki mættu í Bogann í dag. Lokatölur urðu 2-1 og kom seinna mark liðsins þegar innan við tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Tindastóll komst yfir á upphafsmínútum leiksins, en leikmönnum Þórs/KA gekk afar illa að nýta færin sín. Seigla og þolinmætði skiluðu hins vegar tveimur mörkum í seinni hálfleiknum og þremur stigum.

Makala Woods  skoraði eftir að Elísa Bríet Björnsdóttir tók aukaspyrnu vinstra megin úti á velli, sendi boltann inn að nærstönginni þar sem Woods var mætt. Leikurinn var nokkuð opin og bæði lið að fá færi, Þór/KA þó sínu fleiri, en tókst þó ekki að koma boltanum í netið. 

Allar vilja þær ná til boltans en í þetta skiptið var það Genevieve Jae Crenshaw, markvörður Tindastóls, sem náði að slá hann frá eftir hornspyrnu Þórs/KA. Hún var leikmönnum Þórs/KA erfiður ljár í þúfu, en tvisvar mátti hún þó hirða boltann úr netinu sín megin. Mynd: Ármann Hinrik.

Færunum fjölgaði jafnvel í seinni hálfleiknum og eftir um átta mínútna leik jafnaði Karen María Sigurgeirsdóttir leikinn. Aðdragandi marksins var hálfgerður darraðadans, eins og stundum er sagt, og skömmu áður hafði Karen María átt skot í stöng. Bríet Fjóla Bjarnadóttir átti marktilraun, hefði mögulega fengið víti ef ljósmyndirnar ljúga ekki og ef ekki hefði verið skorað mark augnablikum síðar. Markvörður Tindastóls varði, boltinn barst út í teiginn og Karen María fékk aðra skottilraun og nú fór boltinn á milli stanganna.

Leikmenn Þórs/KA gerðu harða hríð að marki gestanna í seinni hálfleiknum. Hér er það Bríet Fjóla Bjarnadóttir sem er komin í færi, en markvörður Tindastóls, Genevieve Jae Crenshaw kemur í veg fyrir mark, í bili að minnsta kosti því örfáum augnablikum síðar kom einmitt jöfnunarmarkið sem Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði. Myndir: Rakel Hinriksdóttir. 

Karen María fær knús að launum frá Margréti Árnadóttur. Mynd: Ármann Hinrik.

Þór/KA var nokkuð meira með boltann og sótti í seinni hálfleiknum, en gestirnir reyndu skyndisóknir þegar þær unnu boltann, pressuðu líka nokkuð framarlega og komu leikmönnum Þórs/KA nokkrum sinnum í vanda þannig, auk þess að vera sjálfar vel skipulagðar til baka þegar Þór/KA sótti. Skyndisóknirnar skiluðu þó ekki marki heldur var það Bríet Jóhannsdóttir sem renndi boltanum í markið þegar skammt var eftir af leiknum.

Mögulega var hugmyndin að senda boltann inn að markinu, þó ljósmyndari fullyrði reyndar að um skot hafi verið að ræða, í öllu falli rúllaði boltinn bara alla leið í markið án þess að varnarmenn eða markvörður Tindastóls næðu til hans. Markið telur jafn mikið hvort sem leikmaðurinn var með sendingu eða skot í huga. Sendingin eða fyrirgjöfin var að minnsta kosti ekki lélegri en svo að hún skipti sköpum um úrslit leiksins.

Bríet Jóhannsdóttir náði að rífa sig lausa úr greiðum Hrafnhildar Sölku Pálmadóttur og á meðan Sandra María Jessen höfðaði til dómaranna um að dæma aukaspyrnu á Tindastól var Bríet ekkert að tvínóna við hlutina heldur renndi boltanum í markið. Liðsfélagarnir Margrét, Hulda Ósk, Sandra og Agnes Birta fagna af innlifun. Myndir: Ármann Hinrik. - Myndasyrpa af mörkunum og mögulega fleiru úr leiknum munu birtast í sér frétt í kvöld eða á morgun.

Segja má að sigurinn hafi verið torsóttur, en mögulega nokkuð sanngjarn, að minnsta kosti ef færin eru talin. Fólk getur svo haft skoðanir á því hve góð færin voru og rökrætt um einstaka dóma. 

Af hverju „heimadómarar“?

Það vekur hins vegar furðu, bæði í þessum leik og mörgum öðrum, að í leik hjá Þór/KA eru ítrekað dómarar sem bæði leikmenn, þjálfarateymið og raunar allir sem tengjast leiknum og knattspyrnu á Akureyri vita að koma úr röðum KA, annars félagsins sem stendur að Þór/KA – sem ætti ekki að vefjast fyrir fólki þegar nafn liðsins er annars vegar. Hvort þeir eru skráðir sem dómarar fyrir hönd KA eða ekki skiptir ef til vill ekki öllu máli, en svarið er líklega að þetta megi af því að rekstur liðsins og skráning hjá KSÍ er í nafni Þórs.

Gallharðir KA-menn, jafnvel starfsmenn KA, eru ítrekað dómarar á leikjum hjá Þór/KA. Annars vegar hlýtur þetta að vera mjög ósanngjarnt fyrir gestaliðin sem hingað koma, gefa þeim tilefni til að draga ákvarðanir þeirra í efa, og hins vegar eru dómarar, hverjir sem þeir eru og hvernig sem þeim tekst til í sínu starfi hverju sinni, settir í þá stöðu að þeir þurfa að passa sig á því að vera ekki heimadómarar, dæma ekki með liðinu sem fólk gerir ráð fyrir að þeir haldi með svona dags daglega þegar þeir eru ekki með flautu og flagg.

Dómarar í slíkri stöðu eiga það á hættu að fara alveg hinum megin við strikið og vera harðari við Þór/KA en gestaliðin sem koma til Akureyrar. Mögulega er fólkið sem stendur að Þór/KA jafn hissa og jafn ósátt við það að fá „heimadómara“ og liðin sem mæta Þór/KA á Akureyri. Mergurinn málsins og spurningin er auðvitað: Af hverju er þetta svona? Þessi spurning heyrist iðulega úr herbúðum beggja liða sem um ræðir í slíkum leikjum.

Hvað sem dómgæslu líður í þessum leik eða öðrum, og hvort úrslit eru sanngjörn eða ekki varð niðurstaðan 2-1 sigur Þórs/KA, annar sigurinn í tveimur leikjum og sex stig komin í sarpinn. Þór/KA er á toppi deildarinnar þegar tveimur leikjum er lokið í 2. umferðinni. 

Leikskýrslan.

Staðan í Bestu deildinni

Mark á 88. mínútu og leikmenn Þórs/KA fagna. Nokkrum mínútum síðar var 2-1 sigur staðreynd. Til gamans má geta þess að ljósmyndarinn Rakel er fyrrverandi leikmaður Þórs/KA (2003-2011) og Tindastóls (2012-2013). Mynd: Rakel Hinriksdóttir.