Flísalögn fyrirferðarmikil í starfi múrara
Múrarar eru að jafnaði önnum kafnir og hafa sennilega alltaf verið. Nýr nemendahópur hóf nám í múararaiðn við VMA í haust, tíu nemendur sem njóta leiðsagnar Bjarna Bjarnasonar múrarameistara.
Starf múrarans hefur breyst töluvert í tímans rás. Í frétt á vef VMA er vitnað í reynslu Bjarna af múrarastarfinu og kemur þar fram að flísalögn sé allt að 35% starfs múrara á Akureyri í dag og hefur það hlutfall hækkað á undanförnum áratugum.
Nám í múraraiðn tekur fjórar annir með vinnu. Í frétt VMA segir meðal annars. „Bjarni segir að þetta sé fyrsti hópurinn sem hann fylgir í gegnum námið þar sem fylgt er frá byrjun til enda svokallaðri ferilbók. Í henni felst að nemendur þurfa að hafa lært mismunandi hluti hjá iðnmeistara til þess að geta farið í sveinspróf og þar með sett punktinn yfir i-ið og geta þá starfað formlega sem múrarar.“
Þetta er þriðji hópur múraranema sem Bjarni fylgir í gegnum námið frá 2015, en síðasti hópur útskrifaðist með sveinspróf vorið 2022. Námið er skipulagt sem lotunám og nemendur sækja því ekki dagskóla. Bjarni hittir þá tvisvar í viku, á fimmtudögum og föstudögum, en þess á milli eru unnin verkefni til hliðar við hið daglega starf nemendanna á vinnumarkaði, en þeir eru allir starfandi hjá fjórum fyrirtækjum á Akureyri, að því er fram kemur í frétt VMA.