Þór/KA tekur á móti toppliði Breiðabliks
Þór/KA og Breiðablik mætast í 7. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) í dag kl. 16:15. Leikurinn er sá fyrsti sem Þór/KA spilar á grasinu í sumar, en liðið hefur spilað þrjá fyrstu heimaleiki sína í sumar í Boganum og unnið þá alla.
Leikurinn er alvöru toppslagur í deildinni því eftir sex fyrstu umferðirnar eru þessi tvö lið í tveimur efstu sætunum. Breiðablik hefur unnið alla leiki sína til þessa og er á toppnum með 18 stig, en Þór/KA hefur unnið fimm og aðeins tapað fyrir Val. Þór/KA er með 15 stig eins og Valur, en hagstæðari markamun. Eini tapleikur Vals kom einmitt í síðustu umferð þegar liðið mætti Breiðabliki á Kópavogsvelli. Þessi þrjú lið hafa, í bili að minnsta kosti, slitið sig nokkuð frá öðrum liðum eftir fyrsta þriðjung hefðbundnu deildarkeppninnar.
Þór/KA og Breiðablik mættust þrisvar í Bestu deildinni í fyrrasumar og unnust allir leikirnir á heimavelli. Þór/KA vann 2-0 í Boganum í maí í fyrra, en Breiðablik svaraði með 4-2 sigri á Kópavogsvelli í ágúst. Í úrslitakeppni efri hluta deildarinnar vann Þór/KA 3-2 sigur á heimavelli.
Þór/KA hefur tilkynnt að frítt sé á leikinn í dag, auk þess sem hitað verði upp með hefðbundnum hætti fyrir leik, hamborgarar á grillinu og þjálfaraspjall við stuðningsfólk kl. 15:30. Leikurinn sjálfur hefst kl. 16:15.
Liðin vika hefur ekki beint verið eins og upptaktur að góðum knattspyrnuleik utanhúss enda hefur hitastigið og veðráttan ekki beint verið gróandanum í vil. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig liðunum tekst að fóta sig á grasinu og kannski ekki síður hvernig grasið verður útleikið eftir fætur knattspyrnukvennanna. Eitthvað mun hlýna þegar líður á daginn og ef til vill verður ágætis knattspyrnuveður, en einhvers staðar var sagt að spáð væri þremur stigum.