Fara í efni
Þór/KA

Þór/KA í úrslitaleik í dag – Þórsarar í umspili

Hulda Björg Hannesdóttir skorar úr síðustu spyrnu vítakeppninnar gegn Stjörnunni í undanúrslitum Lengjubikarkeppninnar og tryggir Þór/KA sæti í úrslitaleiknum. Til hægri: Tim Dalger og félagar í Þór mæta Fjölni í Reykjavík í kvöld. Myndir: Skapti Hallgrímson

Þór/KA mætir Íslandsmeisturum Breiðabliks í dag í úrslitaleik Lengjubikarkeppni kvenna í knattspyrnu og í kvöld hefja Þórsarar leik í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta þegar þeir heimsækja Fjölnismenn í Dalhús í Grafarvogi.

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, er mætt til leiks á ný en hún var veik á mánudaginn þegar samherjar hennar lögðu Stjörnuna að velli í undanúrslitunum í Boganum.

Leikur Þórs/KA og Breiðabliks fer fram á heimavelli Íslandsmeistaranna í Kópavogi og hefst klukkan 18.00. Kastað var upp um það í byrjun vikunnar hvort leikið yrði á Akureyri eða fyrir sunnan. Vert er að geta þess að leikurinn verður sýndur á Stöð 2 Sport.

Þór/KA tryggði sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Stjörnunni sem fyrr segir. Jafnt var eftir 90 mínútna leik, 1:1, en Stelpurnar okkar höfðu betur í vítaspyrnukeppni – 4:2.

  • Úrslitaleikur A-deildar Lengjubikarkeppni kvenna í knattspyrnu
    Kópavogsvöllur kl. 18.00
    Breiðablik - Þór/KA

Umspil um laust sæti í efstu deild karla í körfubolta hefst í kvöld. Akurnesingar sigruðu í deildinni og fara beint upp í efstu deild Íslandsmótsins, Bónusdeildina, en liðin í 2.-9. sæti berjast um hitt sætið. Þórsarar enduðu í 6. sæti deildarinnar og mæta liðinu í 5. sætinu, Fjölni. Lengi vel var útlit fyrir að Þórsarar enduðu í 5. sætinu, höfðu setið þar í nokkurn tíma, en Fjölnismenn náðu í lokaleikjunum. Fjölnir hefur því heimavallarréttinn í þessu einvígi, byrjar á heimavelli og fær oddaleikinn á heimavöll, ef til hans kemur.

  • Umspil 1. deildar karla í körfuknattleik
    Dalhús í Grafarvogi kl. 19:15
    Fjölnir - Þór