40. bókin - Einstaklega skemmtilegt verkefni
Fertugasta bindi bókaflokksins Íslensk knattspyrna kemur í verslanir von bráðar en höfundurinn, Víðir Sigurðsson, er kominn með eitt eintak í hendur. Hann hefur handfjatlað þær nokkrar enda byrjaði hann snemma; Sigurður Sverrisson skrifaði fyrstu bókina 1981, Víðir kom að ritun bókar númer tvö árið eftir og tók svo alfarið við verkefninu – hefur því séð um 38 bækur!
Spurt er: 38 ár! Hvernig ferðu eiginlega að þessu?
„Góð spurning!“ svarar Víðir. „Ætli það sé ekki fyrst og fremst vegna þess hve ég hef alltaf haft mikinn áhuga á viðfangsefninu. Þetta væri ekki hægt öðruvísi; mér finnst þetta einstaklega skemmtilegt verkefni. Það er gaman að sjá bókina verða til og vera í sambandi við gífurlegan fjölda fólks um allt land á hverju ári, sérstaklega á haustin þegar ég safna saman síðustu upplýsingunum og myndum úr öllum áttum. Þessi bók er líka ákveðin heimild um fótboltann, sem mér finnst mjög mikilvægt að sé til.“
Heimildirnar sem finna má í bókunum 40 eru einmitt ævintýralega miklar. „Já, ég sé bókaflokkinn byggjast upp ár frá ári og það hvetur mig alltaf til dáða. Ég hef aldrei litið á þetta sem kvöð sem hvíldi á mér, bókaskrifin hafa einfaldlega þróast þannig að þau eru skemmtilegur partur af tilverunni. Ferlið er orðið svo inngróið í mann og sjálfsagt. Ég skrifa bókina jafnt og þétt allt árið; byrja í febrúar og skrifa svo um allt jafnóðum og það gerist.“
Norðlenskir útgefendur
Víðir segist hafa verið mjög heppinn með útgefendur en svo skemmtilega vill til að þeir hafa tengst Norðurlandi nema rétt í byrjun.
„Þeir hafa allir verið mjög áhugasamir og verið frábært að vinna fyrir þá. Eyjólfur í Bókhlöðunni byrjaði en þegar útgáfa hans rann inn í Skjaldborg tók Björn Eiríksson við, sá góði norðanmaður, sem var að vísu um það bil að flytja reksturinn til Reykjavíkur. Árið 2003 tók svo Helgi Jónsson við útgáfunni, en útgáfa hans, Tindur, er auðvitað rekin frá Akureyri þar sem Ólafsfirðingurinn Helgi býr. Í fyrra tók svo KA-maðurinn Tómas Hermannsson í Sögum við útgáfunni, þannig að óhætt er að segja að tengingin norður sé mjög sterk!“
Í ljósi þessa, og þess að Víðir var sjálfur í MA á sínum tíma, er óhjákvæmilegt að spyrja hann um akureyrska knattspyrnu þessa áratugi sem hann hefur fylgst með. Hvað stendur upp úr?
„Það stendur alltaf upp úr mínum huga þegar þegar KA kom með Íslandsbikarinn norður 1989 og svo uppgangur kvennaliðs Þórs/KA á síðasta áratug; stelpurnar unnu tvo titla og voru í toppbaráttu í tíu ár. Þór/KA var það lið sem sýndi mestan stöðugleika allra á þessum tíma.
Það var magnað að fylgjast með KA-liðinu árið 1989 sem hirti titilinn svo óvænt og á ævintýralegan hátt í síðustu umferðinni. Ég held að enginn hafi reiknað með KA í titilbaráttu en þetta var flott lið sem Guðjón Þórðarson náði að stilla saman og toppaði á réttum tíma um haustið.
Svo get ég ekki annað en nefnt Þórsliðið um miðjan níunda áratuginn; mér fannst mjög gaman að fylgjast með liðinu þegar Halldór Áskelsson, Siguróli „Moli“ Kristjánsson og þeirra félagar voru upp á sitt besta. Það var sorglegt að þeir náðu aldrei Evrópusæti, Þórsliðið á þessum árum er líklega það besta sem aldrei vann neitt. Þetta var mín kynslóð, ég kannaðist við marga af þessum strákum frá því ég var í MA og spilaði með þeim sumum.
Svo er ein Akureyrartenging í fótboltanum hjá mér sem ég verð að nefna: Gamla ÍBA-liðið var eiginlega mitt fyrsta uppáhaldslið. Ég fór að fylgjast með íslenska fótboltanum af alvöru þegar ég sá frétt um að Akureyringar hafi verið „sterkari á svellinu“ en Skagamenn þegar þeir unnu bikarúrslitaleikinn á ísilögðum Melavellinum í desember 1969. Árið eftir var ÍBA sérlega marksækið lið með Hemma Gunn sem spilandi þjálfara og ég drakk í mig það sem skrifað var um liðið í Tímanum!“
Þegar spurt er um hvað hafi breyst í íslenskri knattspyrnu á þessum 40 árum svarar Víðir með annarri spurningu: „Hvað hefur ekki breyst?“
Mjög góð spurning reyndar!
„Ég skrifaði fyrstu bækurnar á ritvél, um leiki sem margir hverjir voru spilaðir á malarvöllum! Þá var fótboltinn algjör áhugamennska en umhverfið er allt annað í dag, að ég tali ekki um hve tæknin og allt við það að búa til svona bók hefur breyst. Í gamla daga sat maður á Landsbókasafninu eða á skrifstofu KSÍ að lesa leikskýrslur og safna efni og fótboltinn er líka allt annar. En ég verð að segja að það er ótrúlega gaman að hafa upplifað allar þessar breytingar.“
Í tilefni tímamótanna – 40. bókarinnar – hafa Sögur opnað vefsíðuna islenskknattspyrna.is þar sem hægt er að nálgast fyrstu 39 bækurnar. Þær hafa allar verið skannaðar inn og hægt að lesa í pdf formi. Menn geta keypt sér aðgang að þeim fjársjóði sem þar er að finna, en þeir sem kaupa nýjustu bókina í forsölu þar fá ókeypis aðgang að öllum gömlu bókunum. Komast þar sannarlega í feitt!
HÉR er hægt að komast inn á síðuna hjá Sögum
Hluti af umfjöllun Morgunblaðsins eftir að KA varð Íslandsmeistari í knattspyrnu sumarið 1989.
Íslandsmeistaralið Þórs/KA í knattspyrnu 2012.
Íslandsmeistaralið Þórs/KA í knattspyrnu 2017.
Þórsaar fagna fimmta marki Halldórs Áskelssonar í stórsigri, 6:1, á FH í síðustu umferð Íslandsmótsins 1985.
Þorvaldur Örlygsson var frábær með KA sumarið 1989, var kjörinn leikmaður ársins af leikmönnum og skrifaði síðan undir atvinnusamning við Nottingham Forest í Englandi. Hér er gengið frá samningi; Stefán Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar KA, Þorvaldur og Ron Fenton, aðstoðar framkvæmdastjóri Forest.
Bikarmeistarar ÍBA 1969, þeir sem voru sterkari á svellinu en Skagamenn, eins og Víðir las á sínum tíma - og þar með varð ÍBA uppáhaldslið hans. Aftasta röð frá vinstri: Sævar Jónatansson, Valsteinn Jónsson, Eyjólfur Ágústsson, Skúli Ágústsson og Gunnar Austfjörð. Miðröð frá vinstri: Númi Friðriksson, Þormóður Einarsson, Pétur Sigurðsson, Viðar Þorsteinsson og Gunnlaugur Björnsson. Fremsta röð frá vinstri: Kári Árnason, Samúel Jóhannsson, Magnús Jónatansson og Einar Helgason þjálfari.