Fara í efni
Þór

Þórsstelpurnar taka á móti Haukum í Höllinni

Hrefna Ottósdóttir var í miklu stuði gegn Breiðabliki; gerði sjö þriggja-stiga körfur og alls 25 stig. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs í körfubolta tekur á móti Haukum úr Hafnarfirði í dag í Subway-deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn hefst kl. 18.15 í Íþróttahöllinni.

Liðin eru jöfn að loknum sex umferðum, hafa bæði unnið þrjá leiki og tapað þremur.

Þórsstelpurnar, sem eru nýliðar í deildinni eins og mörgum er kunnugt, hafa fagnað sigri á Stjörnunni, Snæfelli og Breiðabliki, en tapað fyrir Fjölni, Val og Njarðvík.

Haukar hafa unnið Snæfell, Val og Breiðablik, en tapað á móti Njarðvík, Keflavík og Grindavík. Hafnarfjarðarliðið hefur beðið lægri hluti í tveimur síðustu leikjum þannig að búast við gestunum grimmum til leiks í dag. Góð stemning hefur verið á Þórsleikjunum hingað til og spennandi að sjá hvað gerist í kvöld, bæði innan vallar og utan.

Á heimasíðu Þórs er bent á að komist fólk ekki á völlinn er hægt að horfa á beina útsendingu frá leiknum. Smella má hér til að horfa. Það kostar 1.000 krónur.