Fara í efni
Þór

Þórsstelpurnar mæta Grindvíkingum í kvöld

Þórsstelpurnar þakka áhorfendum fyrir stuðninginn eftir sigur á Stjörnunni á laugardag. Hvað gera þær í kvöld? Frá vinstri, Hrefna Ottósdóttir (9), Heiða Hlín Björnsdóttir (4), Vaka Jónsdóttir (22), Karen Helgadóttir (6) og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir (77). Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Nú dregur til tíðinda í Subway-deild kvenna í körfubolta; í kvöld hefst 17. og næstsíðasta umferð deildarinnar áður en henni verður tvískipt og spilað áfram í efri og neðri hluta. Þórskonur fá Grindvíkinga í heimsókn í Höllina í kvöld kl. 18:15.

Fyrirkomulagið á deildinni er ekki beint einfalt. Tíu lið hófu keppni og spila tvöfalda umferð. Að þeim 18 umferðum loknum skiptist deildin í tvennt, efstu fimm spila innbyrðis tvöfalda umferð og neðstu fimm tvöfalda umferð innan síns hóps. Neðri hlutinn verður reyndar aðeins með fjórum liðum því Breiðablik dró sig úr keppni rétt fyrir jól. Eftir þennan þriðja hluta mótsins tekur svo við hefðbundin úrslitakeppni átta efstu liða.

Þór er í 5. sæti með sjö sigra í 14 leikjum, en fjögur lið þar fyrir ofan, Keflavík, Njarðvík, Stjarnan og Grindavík, eru örugg í efri hlutanum. Haukar hafa hins vegar sótt í sig veðrið að undanförnu og vantar aðeins einn sigur upp á að ná Þórsliðinu núna þegar liðin eiga bæði tvo leiki eftir. Þór á eftir að mæta Grindvíkingum heima og Keflvíkingum úti. Haukar eiga tvo heimaleiki eftir, gegn Stjörnunni í kvöld og svo Fjölni í 18. umferðinni eftir viku. Haukum nægir að ná Þór að stigum því Haukakonur eru með betri stigatölu í innbyrðis leikjum liðanna. Valur, Fjölnir og Snæfell verða í neðri hlutanum.

Þórsliðið hefur verið erfitt heim að sækja í vetur. Aðeins Njarðvíkingum hefur tekist að sigra á Akureyri, en önnur lið hafa beðið lægri hlut. Ástæða er til þess að hvetja bæjarbúa til þess að fjölmenna í Höllina í kvöld og hvetja stelpurnar til dáða. Þær tryggðu sér á laugardaginn sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar með sigri á Stjörnunni og sæti í efri hluta deildarinnar nú í augsýn.

Grindvíkingar eru einnig komnir í undanúrslit bikarkeppninnar. Þeir sigruðu Valsmenn örugglega í átta liða úrslitunum á sama tíma og Þór lagði Stjörnuna.