Fara í efni
Þór

Þórsarar komnir aftur á sigurbraut

Maddie Sutton, númer 25, lék mjög vel í dag þrátt fyrir að ganga ekki heil til skógar. Til hægri Heiða Hlín Björnsdóttir og Eva Wium. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór sigraði Fjölni með 10 stiga mun í dag, 85:75, í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta kvenna, Subway deildinni. Liðin mættust í Íþróttahöllinni á Akureyri og voru heimamenn með forystu allan tímann.

  • Skorið eftir leikhlutum: 24:19 – 21:13 – 45:32 – 17:24 – 23:19 – 85:75

Þetta var sjötti sigur Þórsstelpnanna í deildinni og eru þær jafnar liðum Vals og Hauka að stigum í 5. til 7. sæti; öll hafa unnið sex leiki og tapað fimm

Maddie Sutton tognaði illa á ökkla undir lok fyrri hálfleiks í viðureigninni gegn Keflavík á dögunum en lék þó lungann úr síðasta leikhlutanum í glæsilegum sigri. Hún kom ekkert við sögu í vikunni þegar stelpurnar töpuðu naumlega fyrir Stjörnunni í Garðabæ en mætti aftur af krafti í dag – þótt hún gengi ekki heil til skógar – og lék mjög vel. Lore Devos hélt einnig sínu striki og var afar öflug.

Jovanka Ljubetic lék einnig vel og hefur vaxið mjög ásmegin síðustu vikur. Hulda Ósk Bergsteinsdóttir, sem meiddist á hné eftir árekstur við Sutton í sigurleiknum gegn Keflvíkingum, var hins vegar ekki með og verður frá næstu vikurnar.

Lore Devos var atkvæðamikil í leiknum í dag. Hér verst hún Raquel Laneiro sem lék gríðarlega vel. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sigur Þórsara var býsna öruggur og afar sanngjarn. Forysta þeirra var 13 stig í hálfleik en fleiri í liði gestanna tóku við sér í þriðja leikhluta eftir að Raquel Laneiro og Korinne Campbell höfðu nánast verið þær einu með lífsmarki fram að því. Að þeim hluta loknum var munurinn sex stig en Þór jók forystuna á ný snemma í fjórða og síðasta leikhluta.

Tölfræði Þórsara, stig –  fráköst – stoðsendingar

Lore Devos 25/8/1, Maddie Sutton 23/15/4, Jovanka Ljubetic 13/3/4, Hrefna Ottósdóttir 8/5/1, Eva Wium Elíasdóttir 8/3/2, Karen Lind Helgadóttir 3/1/1, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 3/0/0, Heiða Hlín Björnsdóttir 2/3/1.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.