Fara í efni
Þór

Þórsarar fá topplið Keflavíkur í heimsókn

Lore Devos hefur leikið mjög vel með Þórsliðinu í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Þórs í körfubolta fær lið Keflavíkur í heimsókn í dag í Subway-deildinni, efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn hefst í Íþróttahöllinni kl. 17.00.

Gestirnir tróna á toppi deildarinnar, hafa unnið alla átta leikina í deildinni til þessa. Þórsarar eru í sjötta sæti, hafa unnið fjóra leiki en tapað jafn mörgum.

Leikurinn átti að fara fram í vikunni en var þá frestað vegna þess að ekki var flogið og voru Keflvíkingar skammaðir á samfélagsmiðlum fyrir að keyra ekki norður. Sannleikurinn er sá að þeir hugðust keyra en Körfuknattleikssambandið (KKÍ) bað Keflvíkinga að bíða með það; ekki væri loku fyrir það skotið að flogið yrði síðdegis. Málið mun hafa snúist um ferðatilhögun dómaranna.

Þór tapaði fyrir Grindavík í síðasta leik, sem fram fór í Smáranum í Kópavogi, en Keflvíkingar unnu Íslandsmeistara Vals með 20 stiga mun. Stelpurnar okkar, nýliðar í deildinni, hafa sýnt í vetur að mikið býr í þeim og fróðlegt verður að sjá rimmu þeirra og toppliðsins í dag.