Fara í efni
Þór

Þór/KA semur við Hildi Önnu Birgisdóttur

Stjórn Þórs/KA hefur samið við Hildi Önnu Birgisdóttur (2007) út árið 2026, en þetta er fyrsti leikmannasamningur hennar á ferlinum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Frétt Þórs/KA af undirrituninni er að finna á vef félagsins og er svohljóðandi:

Hildur Anna er enn ein unga og efnilega knattspyrnukonan sem kemur upp úr yngri flokkum félagsins inn í öflugan hóp knattspyrnukvenna í meistaraflokknum, sem velflestar hafa komið sömu leið og hún, byrjað ferilinn í yngstu flokkunum hjá Þór og KA og komið svo inn í Þór/KA-fjölskylduna þegar þeirra tími er kominn.

Hún á nú þegar að baki átta leiki með meistaraflokki, en hún kom fyrst við sögu í meistaraflokksleik með Þór/KA gegn Val í Lengjubikarnum 2023. Hún hefur komið við sögu í fjórum leikjum liðsins í Bestu deildinni í sumar.

Hildur Anna leikur á miðjunni og hefur verið einn af lykilleikmönnum í liðum Þórs/KA í 2. og 3. flokki undanfarin ár. Hún skoraði til að mynda sex mörk í 11 leikjum með 2. flokki U20 í fyrrasumar þegar hún var á eldra ári í 3. flokki. Þá skoraði hún fjögur mörk í fimm leikjum í Kjarnafæðimótinu í upphafi árs, en það mót er þó ekki viðurkennt sem opinbert mót á vegum KSÍ.

Þór/KA fagnar því að fá þessa ungu og efnilegu knattspyrnukonu á samning hjá félaginu.