Fara í efni
Þór

Þór - Afturelding – VÍS býður öllum á leikinn

Þórsarar fagna fyrsta marki liðsins á Íslandsmótinu í ár eftir að Daninn Marc Sörensen skoraði beint úr aukaspyrnu gegn Vestra í Boganum í fyrsta umferðinni. Hann skoraði einnig í síðasta leik, jafntefli í Grindavík. Frá vinstri: Nikola Kristinn Stojanovic, Ýmir Geirsson, Sörensen, Valdimar Daði Sævarsson og Alexander Már Þorláksson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar fá lið Aftureldingar í heimsókn í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Leikurinn hefst klukkan 16.00 og er aðgangur ókeypis í boði VÍS, í tilefni nýlegs samnings tryggingafélagsins og Þórs um að heimavöllur Þórs heiti VÍS-völlurinn næstu þrjú ár.

Þór er í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig. Liðið hefur unnið alla fjóra heimaleikina í deildinni en gengið verr á útivöllum þar sem Þórsarar hafa gert tvö jafntefli og tapað fjórum leikjum.

Eitthvað verður undan að láta í dag því lið Aftureldingar, sem hefur verið á mikilli siglingu í sumar, er taplaust og á toppi deildarinnar. Mosfellingar hafa unnið níu leiki og gert tvö jafntefli. Þeir eru með 29 stig að loknum 11 leikjum, sjö stigum á undan Fjölni sem er í öðru sæti.

Fyrri leik Þórs og Aftureldingar í sumar, í annarri umferð deildarinnar, lauk með 1:0 sigri sunnanmanna. Eina markið var gert á 89. mínútu, næst síðustu mínútu hefðbundins leiktíma. Liðin mættast þá á Framvellinum í Úlfarsárdal, vegna framkvæmda við heimavöll Aftureldingar í Mosfellsbæ.