Fara í efni
Þór

Tap í sex marka leik á Kópavogsvelli

Bríet Jóhannsdóttir og Birta Georgsdóttir í baráttu í bikarleik liðanna fyrr í sumar. Mynd: Akureyri.net.

Þór/KA mátti þola tap í sex marka leik gegn Breiðabliki í 16. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Jafnt var eftir fyrri hálfleikinn, en heimakonur skoruðu þrjú í þeim seinni á móti einu marki Þórs/KA og lokatölur því 4-2 Breiðabliki í vil.

Breiðablik náði forystunni þegar Birta Georgsdóttir skoraði skömmu fyrir miðjan fyrri hálfleikinn. Allt stefndi í að þannig yrði staðan í leikhléi, en okkar konur voru ekki á sama máli. Einni mínútu var bætt við leiktímann í fyrri hálfleiknum og það dugði til að jafna leikinn þegar Lara Ivanuša skoraði eftir vel útfærða sókn sem endaði á því að Hulda Ósk Jónsdóttir sendi boltann fyrir markið þar sem Lara kláraði færið. Þetta var síðasta sókn fyrri hálfleiksins því um leið og heimakonur byrjuðu aftur á miðju var flautað til leikhlés.

Markaregn og færi í seinni hálfleik

Blikar náðu svo aftur forystunni þegar Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði á 51. mínútu, en um tveimur mínútum síðar kom aftur jöfnunarmark. Lara Ivanuša átti þá sendingu inn fyrir vörnina þar sem Sandra María Jessen stakk sér fram fyrir varnarmenn Breiðabliks, lék í áttina að markinu og skoraði. Minnstu munaði reyndar að Þór/KA næði forystunni áður en Katrín skoraði annað mark Blika, en þá átti Sandra María skot í þverslá eftir undirbúning frá Ísfold Marý Sigtryggsdóttur.

Átta mínútum eftir jöfnunarmarkið skoraði Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir þriðja mark heimakvenna. Eftir það var eins og krafturinn dvínaði í leik Þórs/KA og heimakonur tryggðu sigurinn endanlega þegar Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði fjórða markið á 77. mínútu.

Margt jákvætt þrátt fyrir tap

Niðurstaðan varð því 4-2 tap hjá okkar konum á Kópavogsvelli í dag, en engu að síður margt jákvætt í leik Þórs/KA. Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari stóð frammi fyrir erfiðu verkefni í undirbúningi leiksins því hann þurfti að stilla upp verulega breyttri varnarlínu þar sem Hulda Björg Hannesdóttir tók út leikbann og Lidija Kuliš var frá vegna veikinda. Hulda Björg hefur verið kletturinn í vörnni hjá Þór/KA og einn traustasti leikmaður liðsins á tímabilinu þó sérfræðingar taki ekki alltaf eftir hennar framlagi í leikjum liðsins. Lidija hefur einnig verið traust í vörninni og eiginlega alltaf átt góða leiki.

Alltaf kemur þó maður í manns stað og áfram halda Jóhann Kristinn og félagar að gefa ungum akureyrskum knattspyrnukonum tækifæri á stóra sviðinu. Sex af sjö varamönnum liðsins í dag eru fæddar á bilinu 2006-2010.

Þór/KA heldur 3. sætinu þrátt fyrir tapið, eru með 28 stig úr 15 leikjum, en Víkingar nálgast óðfluga, eru nú tveimur stigum á eftir Þór/KA þegar aðeins tvær umferðir eru eftir fyrir tvískiptingu deildarinnar.

Smellið hér til að opna leikskýrsluna á vef KSÍ og hér til að skoða stöðuna í Bestu deild kvenna.