Fara í efni
Þór

Svekkjandi töp fyrir ÍA og Grindavík

Þórsstelpur fagna á þessari mynd, en höfðu ekki ástæðu til að fagna í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Körfuboltahelgin var Þórsurum ekki hagstæð. Karlalið félagsins tapaði fyrir ÍA á Skaganum í gær og kvennaliðið lenti í klóm vel gíraðra Grindvíkinga í Smáranum í Kópavogi í dag.

Leikur Þórs og Grindavíkur í Subway-deild kvenna var harla óvenjulegur, eða að minnsta kosti aðdragandi og aðstæður. Grindvíkingar hafa ekki getað æft heima hjá sér í rúma viku eins og kunnugt er og hafa fengið inni hjá félögum á höfuðborgarsvæðinu. Heimaleikur þeirra gegn Þór fór fram í húsi Breiðabliks, Smáranum í Kópavogi.

Þórsstelpurnar hittu ekki á sinn besta dag á meðan Grindvíkingar náðu að nýta sér hræðilegar ytri aðstæður til hvatningar og baráttu inni á vellinum.

Grindavík hafði 18 stiga forskot eftir fyrri hálfleikinn, 41-23. Með góðum spretti í upphafi seinni hálfleiksins minnkuðu Þórsstelpurnar muninn í átta stig, en þá tóku Grindvíkingar aftur við sér og bættu jafnt og þétt við forskotið það sem eftir lifði leiks og unnu að lokum með 30 stiga mun.

  • Grindavík - Þór (25-17) (16-6) 41-23 (25-18) (27-22) 93-63

Lore Devos og Maddie Sutton voru eins og oftast áður öflugastar í liði Þórs. Lore skoraði 23 stig og tók tíu fráköst, en Maddie skoraði 19 stig og tók 16 fráköst. Danielle Rodriguez var Þórsstelpunum erfið, skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og átti sjö stoðsendingar.

Þór er í 6. sæti Subway-deildarinnar með fjóra sigra í átta leikjum. Þær fá annað stórt próf strax á þriðjudaginn kemur þegar þær fá taplaust topplið Keflavíkur í heimsókn í Íþróttahöllina á Akureyri.

Til að skoða ítarlega tölfræði leiksins á vef KKÍ, smellið hér.

Fjögurra stiga tap á Skaganum

Karlalið Þórs mætti ÍA á Skaganum og tapaði með fjögurra stiga mun í jöfnum og spennandi leik. Skagamenn höfðu yfirhöndina framan af og héldu forystunni lengi vel eða allt þar til í upphafi fjórða leikhluta þegar Þórsarar jöfnuðu í 62-62. Aftur náðu Skagamenn forskoti og náðu að hanga á því út leikinn, en þó munaði ekki miklu að Þórsurum tækist að ná í skottið á þeim. Harrison Butler minnkaði muninn í tvö stig þegar rúm hálf mínúta var eftir af leiknum, en nær komust Þórsarar ekki. Þórsarar sitja í 8.-9. sæti 1. deildarinnar, jafnir Selfyssingum, hafa unnið tvo leiki af sjö.

  • ÍA - Þór (20-14) (22-23) 42-37 (20-23) (23-21) 85-81

Harrison Butler, Jason Gigliotti og Reynir Róbertsson voru mest áberandi í Þórsliðinu. Butler skoraði 25 stig og tók tíu fráköst, Gigliotti var með 20 stig og 14 fráköst og Reynir með 20 stig.

Til að skoða ítarlega tölfræði leiksins á vef KKÍ, smellið hér.