Styrktarleikur Þórs og Magna í Boganum
Dómararnir í Knattspyrnudómarafélagi Norðurlands (KDN), ásamt Þór og Magna standa með sínum manni, Birgi Þór Þrastarsyni, og hafa ákveðið að leikur Þórs og Magna í Kjarnafæðimótinu í kvöld verði ágóðaleikur fyrir tvíburaforeldrana Birgi Þór og Rannveigu sem Akureyri.net fjallaði um fyrr í vikunni. Birgir spilaði knattspyrnu með yngri flokkum Þórs sem og meistaraflokki Magna 2003 og 2005.
KDN stendur árlega að Kjarnafæðimótinu þar sem keppt er bæði í karla- og kvennaflokki. Mótið hefst að jafnaði í desember og stendur fram í byrjun febrúar og má segja að það sé í raun æfingamót bæði fyrir félögin á Norður- og Austurlandi sem og dómarana sjálfa í KDN. Birgir Þór Þrastarson hefur stundað dómgæsluna í nokkur ár og rennur félögum hans því blóðið til skyldunnar og styðja sinn mann með ágóðaleik í mótinu í kvöld.
DJ grill tók sig til á dögunum og bauð upp á Big Red-borgarann og rennur ágóðinn af honum einnig til fjölskyldunnar - Big Red-borgarinn fyrir Bigga rauða.
Venjan undanfarin ár hefur verið að úrslitaleikur mótsins er einnig góðgerðarleikur og þá til styrktar mismunandi málefnum á hverju ári. Væntanlega má gera ráð fyrir því að eitthvað slíkt verði uppi á teningnum í þetta skipti þegar þar að kemur.
Leikur Þórs og Magna fer fram í Boganum í kvöld og hefst kl. 20. Aðgangur kostar 1.000 krónur og gildir miðinn sem happdrættismiði einnig þar sem dregið er í leikhléinu. Þá verða einnig veitingar, Gunni Mall á grillinu og eitthvað með. Allur ágóði rennur til Birgis og Rannveigar, sem enn dvelja syðra ásamt tvíburasonum sínum, Mikael Myrkva og Bjarti Loga, sem fæddust þann 7. desember, eftir 25 vikna meðgöngu.