Fara í efni
Þór

Þór/KA semur við Bríeti Fjólu til tveggja ára

Bríet Fjóla fermdist 27. apríl á síðasta ári og flaug að athöfninni lokinni suður þar sem Þór/KA mætti FH í Hafnarfirði í Bestu deildinni. Fermingarstúlkan kom inn á í leiknum og Akureyri.net birti þessar myndir með frétt um daginn óvenjulega en ánægjulega.

Stjórn Þórs/KA hefur samið við hina ungu og efnilegu knattspyrnukonu Bríeti Fjólu Bjarnadóttur til næstu tveggja ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þór/KA.

„Bríet Fjóla (2010) er nýorðin 15 ára og hefur þrátt fyrir ungan aldur nú þegar leikið 21 meistaraflokksleik í KSÍ-mótum, þar af 15 leiki í Bestu deildinni. Hún kom fyrst við sögu í leik með meistaraflokki í september 2023 í eftirminnilegum 3-2 sigri gegn Breiðabliki, en leikurinn var jafnframt minningarleikur um afa hennar, Guðmund Sigurbjörnsson, fyrrverandi formann Þórs,“ segir í tilkynningunni.

Bríet Fjóla hefur verið í meistaraflokkshópi Þórs/KA í vel á annað ár, en hefur jafnframt leikið með 2. og 3. flokki félagsins á sama tíma og hún var enn lögleg sem leikmaður í 4. flokki.

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, foreldrar Bríetar Fjólu, Arna Skúladóttir og Bjarni Freyr Guðmundsson, Bríet Fjóla og Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA.

„Enn og aftur leitar Þór/KA ekki langt yfir skammt að góðum og efnilegum knattspyrnukonum enda koma þær reglulega upp úr starfi yngri flokka félagsins og félaganna sem standa að Þór/KA,“ segir í tilkynningunni.

„Það er alltaf mikið gleðiefni þegar ungar og efnilegar heimastelpur semja við félagið sitt,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA. „Bríet Fjóla er sannarlega ein af þeim sem eiga framtíðina fyrir sér hér í Þór/KA. Þrátt fyrir ungan aldur er Bríet Fjóla nú þegar komin með nokkra reynslu af Bestu deildinni og er að taka góð og ákveðin skref á sínum ferli. samviskusöm, dugleg, hæfileikarík og góður liðsfélagi sem leggur sig alltaf alla fram á æfingum og í leikjum. Við hlökkum mikið til að vinna með henni áfram og sjá hana blómstra á vellinum.“