Fara í efni
Þór

Settum í forgang að þróa unga leikmenn

Þorlákur Árnason þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn eftir einn heimaleikja Þórs í sumar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar tefldu fram mörgum ungum og efnilegum leikmönnum í sumar í Lengjudeildinni í knattspyrnu, næstu efst deild Íslandsmótsins; heimatilbúnir, ungir strákar fengu alvöru tækifæri og sumir þeirra voru í lykilhlutverkum.

Afar áhugavert uppbyggingarferli er í gangi hjá félaginu og spennandi verður að fylgjast með framhaldinu. Þórsarar luku keppni í sjöunda sæti með 30 stig, jafnmörg og Grindvíkingar sem teljast sæti ofar vegna betri markatölu. Akureyri.net ræddi við þjálfarann, Þorlák Árnason, sem ráðinn var til starfans fyrir sumarið. Hann er afar ánægður með yngri flokka starfið hjá félaginu; Akademíuna, sem hann kallar svo.

Þorlákur hefur víða komið við sögu, áður en hann réð sig til Akureyrar starfaði hann fyrir Knattspyrnusamband Hong Kong við að skipuleggja uppbyggingarstarf þar í landi næstu árin. En hvers vegna kom hann til Þórs; hvað heillaði Þorlák við það verkefni?

„Það sem heillaði mig mest við Þór var að ég vissi að verkefnið yrði mjög krefjandi og við þyrftum að hugsa til lengri tíma til að endurskipuleggja félagið og meistaraflokksliðið. Þá hefur ástríða stuðningsmanna alltaf heillað mig mikið, hinn almenni Þórsari er svolítið blóðheitur og skemmtilegur.“

Unglingastarfið hjá Þór hlýtur að vera afbragðs gott miðað við hve margir ungir strákar þaðan eru í meistaraflokknum. Er það ekki rétt mat?

„Jú, ég held að það sé alveg ljóst að Akademía Þórs er að skila gríðarlega góðu starfi. Við erum með mjög hæfan yfirþjálfara [Arnar Geir Halldórsson] og skýra stefnu um leið leikmanna frá 4. flokki upp í meistaraflokk. Þetta er að skila sér í betri einstaklingum í meistaraflokk félagsins.“

Hvernig gekk í sumar miðað við áætlanir?

„Ég held að hlutabréfin í Þór hafi hækkað töluvert síðan við byrjuðum fyrir einu ári. Við erum með eina bestu Akademíu landsins og okkar efnilegustu leikmenn fá að reyna sig í meistaraflokki. Tenging og samvinna milli yngri flokka starfs og meistaraflokks hefur verið mjög skýr fyrir vikið enda er grasrótin lífæð félags eins og Þórs. Árangur meistaraflokks í sumar var ásættanlegur, fyrri umferðin var slök en sú seinni var mjög góð og lofar góðu fyrir framhaldið.“

Einn ungur leikmaður, Aron Ingi Magnússon var lánaður til Venezia á Ítalíu um mitt sumar og hefur ítalska félagið forkaupsrétt að honum. Koma það þér á óvart að einn þessara bráðefnilegu ungu stráka hyrfi svo fljótt á braut?

„Já og nei, það er mikill hraði í þessum bransa og ef þú setur 17-18 ára drengi í lykilhlutverk í meistaraflokki þá munu þeir vekja athygli ef að þeir standa sig. Aron Ingi stóð sig gríðarlega vel og var orðinn lykilmaður í liðinu þegar hann hvarf á braut.“

Fleiri mjög efnilegir strákar eru í röðum Þórsara, hvernig meturðu stöðu þeirra?

„Við eigum marga góða, unga leikmenn og svo aðra sem eru efnilegir. Við höfum mjög markvisst sett upp plan fyrir yngstu leikmennina í meistaraflokki en við áttum ekki von á því að jafn margir 2. flokks leikmenn myndu spila í sumar. Átta leikmenn spiluðu og fjórir af þeim voru í lykilhlutverki í liðinu, eftir á að hyggja þá held ég að þetta hafi verið nauðsynlegt þar sem að við höfum misst mikið af leikmönnum undanfarin ár og við þurftum að auka breidd leikmannahópsins.“

Tveir eru mjög oft nefndir, auk Arons Inga, þeir Bjarni Guðjón Brynjólfsson og Kristófer Kristjánsson. Eru fleiri slíkir á leiðinni?

„Eðlilega þá eru þeir yngstu sem hafa verið í byrjunarliðilu nefndir, Bjarni Guðjón og Kristófer stigu stórt skref í sumar en það er ennþá mikið svigrúm fyrir þá að bæta sig enn meira. Ragnar Óli Ragnarsson og Birgir Ómar Hlynsson eru einnig gríðarlega efnilegir varnarmenn sem ég bind miklar vonir við á næsta ári. Þeir búa líkt og Bjarni Guðjón og Kristófer yfir eiginleikum sem eru mikilvægir í nútíma fótbolta. En miðað við reynslu síðasta árs, þá getum við séð aðra unga leikmenn stíga upp og springa út.“

Hver er framtíðarsýnin? Vilja Þórsarar stefna að því að berjast um titla eða líta þeir frekar á sig sem uppeldisklúbb á þann hátt að gefa leikmönnum sínum tækifæri til að komast til félaga erlendis?

„Verkefni allra félaga er að þróa leikmenn og vinna fótboltaleiki. Mismunandi félög eru síðan með mismunandi áherslur á þessu eftir fjárhag, framboði leikmanna og gæði unglingastarfs. Það hefur verið í forgangi í sumar hjá Þór að þróa leikmenn, það er einfaldlega eitthvað sem við urðum að setja í forgang. Fyrir tímabilið áttum við alltof fáa leikmenn sem höfðu reynslu af því að spila í Lengjudeildinni, þessu náðum við að snúa við með því að gefa mörgum 2. flokks leikmönnum tækifæri og svo einnig öðrum ungum leikmönnum á aldrinum 20 til 23 ára sem hafa ekki verið í lykilhlutverki undanfarin ár. Þó svo að verkefnið sé áfram að þróa leikmenn þá tel ég að við séum tilbúnir í næsta skref sem lið að berjast í efri hlutanum að ári og áherslan því klárlega meiri á að vinna leiki.“

Hver var þín sýn á Þór áður en þú komst?

„Ég var svo sem ekki neinn sérfræðingur í að meta félagið en mér dettur alltaf í hug orðið ástríða þegar ég hugsa um félagið. Allir leikir sem maður spilaði sjálfur gegn Þór sem leikmaður eða þjálfari voru baráttuleikir og oft var bara hundleiðinlegt að spila við Þór!

Ég vissi líka að félagið sjálft gæti hugað betur að innra skipulagi og að það skorti svolítið upp á framtíðarsýn en þetta á reyndar við um svo mörg önnur knattspyrnufélög. Þetta innra starf hefur breyst mikið og ég tel mjög skýrt fyrir hvað Þór stendur í dag.“

Fyrir hvað stendur Þór í dag?

„Í dag er félagið statt í miðri uppbyggingu. Meistaraflokksliðið er efnilegt en okkur langar til að taka næsta skref og gera það að liði sem er sigursælt líka. Í dag er Akademían í Þór ein sú virtasta á landinu og utanaðkomandi aðilar tengja okkur við framþróun ungra leikmanna sem fá snemma tækifæri í meistaraflokki. Við erum stoltir af því að aðrir fótboltaáhugamenn viðurkenni þessi einkenni okkar.“

Hvernig hefur liðið breyst fótboltalega á þessu eina ári og hvernig viltu að það þróist áfram?

„Ég held að það hafi ekki verið mikill munur á fótboltanum á einu ári, við erum með leikmenn sem eru tæknilega góðir þannig að auðvitað teljum við best að spila fótbolta sem nýtist liðinu best. Svo má ekki gleyma því að framan af móti vorum við ekki að ná í mörg stig og þá eru menn lítið að hugsa um fegurð fótboltans. En við getum sagt að seinni umferðin hjá okkur var virkilega góð og maður var farinn að sjá góða liðsheild myndast sem skilaði sér í betri heildarsvip á liðinu í bæði vörn og sókn.“

Þorlákur og nokkrir leikmenn Þórs fagna marki Suður-Kóreubúans Je-Wook Woo gegn Grindavík í sumar. Woo staldraði ekki lengi; snéri heim á ný vegna meiðsla.

Gríðarlegar mannabreytingar hafa orðið í Þórsliðinu á síðustu tveimur til þremur árum. Hvernig finnst þér hafa gengið að takast á við það? Og hver verða næstu skref; er stefnt að því að styrkja leikmannahópinn fyrir næsta sumar?

„Já, þessar miklu mannabreytingar settu Þór í mjög erfiða stöðu og það hefur tekið tíma að vinda ofan af þessu. Ég held að við höfum stigið stórt skref í sumar að mæta þessum miklu breytingum þar sem að margir af okkar leikmönnum sönnuðu að þeir eiga fullt erindi í að spila í deildinni. Lykillinn var auðvitað að veita leikmönnum traust og sýna þolinmæði.

Leikmannhópurinn núna er töluvert sterkari en hann var síðasta haust og það er ljóst að við missum mun færri leikmenn núna. Ég býst við því að munum tefla fram sterkari hóp og vera með meiri breidd í hópnum en síðastlið ár.“

Nýlega var greint frá því að Harvey Willard, einn besti maður liðsins í sumar, vildi reyna fyrir sér í sterkari deild. Eru það vonbrigði, eða e.t.v. bara lífsins gangur?

„Já, Harvey ákvað að róa á önnur mið, það kom okkur ekki á óvart. Hann hefur spilað í mörg ár í þessari deild og mjög eðlilegt að leikmaður með hans gæði vilji reyna sig á stærra sviði.“

Einhver skilaboð til stuðningsmanna Þórs í lokin?

„Stuðningsmennirnir okkar eru ástríðufullir en þeir eru alltof fáir. Við þurfum á þeim að halda til að geta tekið næsta skref í framþróun liðsins. Við erum að fá upp frábæra unga leikmenn sem eru að taka við keflinu en þeir þurfa á stuðningi að halda. Það á enginn stuðningsmaður Þórs að þurfa að missa af því að sjá þetta lið blómstra á næstu árum.“