Fara í efni
Þór

Mjög öruggur fyrsti sigur KA/Þórs í vetur

Anna Þyrí Halldórsdóttir svífur inn af línunni og skorar eitt fjögurra marka sinna í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór sigraði Aftureldingu af miklu öryggi, 26:16, á heimavelli í dag í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmóts kvenna í handbolta. Stelpurnar okkar byrjuðu miklu betur, staðan í hálfleik í KA-heimilinu var 13:6, og munurinn jókst hægt og rólega í seinni hálfleik.

Þetta var fyrsti sigur KA/Þórs í vetur. Liðið er komið með þrjú stig og færðist upp fyrir Aftureldingu sem er með tvö stig. Stjarnan er enn neðst með eitt stig en öll liðin hafa lokið sex leikjum.

Markvörður KA/Þórs, Matea Lonac, reyndist gestunum erfið í dag. Hún varði 18 skot, tæplega 53% þeirra sem komu á markið. Átta leikmenn KA/Þórs skoruðu, Lydía Gunnþórsdóttir og Nathalia Soares Baliana mest.

Mörk KA/Þórs: Lydía Gunnþórsdóttir 5 (2 víti), Nathalia Soares Baliana 5, Anna Þyrí Halldórsdóttir 4, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Kristín A. Jóhannsdóttir 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 2, Aþena Einvarðsdóttir 2, Rafaele Nascimento Fraga 2.

Varin skot: Matea Lonac 18 (52,9%)

Smellið hér til að sjá frekari tölfræði og gang leiksins

Lydía Gunnþórsdóttir skorar eitt fimm marka sinna gegn Afturelding í dag.