Fara í efni
Þór

Jafnteflið vonbrigði, en Þór/KA hélt 3. sætinu

Leikmenn Þórs/KA fagna marki gegn Fylki á heimavelli fyrr í sumar. Mynd: Þórir Tryggva.

Þór/KA tókst ekki að sækja öll þrjú stigin í Árbæinn eins og ætlunin var í lokaumferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Liðin skildu jöfn, bæði skoruðu tvö mörk í fjörugum og opnum leik. Vonbrigði að ná ekki að klára leikinn því liðið fékk færi til þess, segir fyrirliðinn.

Leikurinn var í lokaumferð deildarkeppninnar fyrir tvískiptingu í efri og neðri hluta og lokasprettinn sem fram undan er. Þór/KA hafði fyrir nokkru tryggt sér sæti í efri hlutanum enda hefur liðið verið í 3. sæti deildarinnar nánast allt mótið. Glötuð stig að undanförnu hafa hins vegar gefið liðunum fyrir neðan von um að ná af þeim sætinu og fyrir leikinn í dag voru Þór/KA og Víkingur jöfn að stigum, bæði með 29 stig. Á sama tíma og Þór/KA gerði jafntefli í Árbænum töpuðu Víkingar á Kópavogsvelli. Þór/KA er því áfram í 3. sætinu, stigi á undan Víkingum og fimm stigum á undan FH. Enn eru þó fimmtán stig í pottinum á lokaspretti Íslandsmótsins.

Fengum klárlega færi til að vinna

Þór/KA komst yfir strax á 9. mínútu með marki Söndru Maríu Jessen, en heimakonur í Fylki jöfnuðu rúmum tveimur mínútum síðar með marki frá Helgu Guðrúnu Kristinsdóttur. Hún var svo aftur á ferðinni skömmu fyrir lok fyrri hálfleiksins með sitt annað mark og Fylkiskonur leiddu í leikhléi. Sandra María jafnaði með laglegu marki á 53. mínútu og þar við sat þrátt fyrir ákafar tilraunir og ágætis færi til að klára leikinn og hirða öll stigin. Fyrirliðinn segir niðurstöðuna úr leiknum vonbrigði, en þó gott að hafa náð að jafna eftir að vera undir í leikhléi.


Sandra María Jessen í baráttu við leikmenn Fylkis í fyrri leik liðanna í sumar. Mynd: Þórir Tryggva.

„Við fórum klárlega í þennan leik með þær væntingar og kröfur að taka þrjú stig þar sem þetta var leikur sem skipti okkur miklu máli. Við ætluðum að enda í 3. sæti,“ sagði Sandra María þegar hún var spurð út í leikinn í dag. „Við fengum stig úr leiknum sem tryggði okkur 3. sætið, en samt sem áður vonbrigði að hafa ekki klárað þennan leik því við fengum klárlega færi til þess og vorum pínu klaufar í okkar varnarleik sem lið að fá þessi tvö mörk á okkur, en eftir að hafa lent undir og komið inn í seinni hálfleikinn var mjög gott að ná í stigið. En við vildum klárlega fá meira úr leiknum,“ sagði Sandra María.

Smellið hér til að skoða leikskýrsluna og hér til að skoða stöðuna í deildinni.

Ónýtt færi og ódýr mörk

Þór/KA skorti ekki færin í leiknum. Þau voru fjölmörg. Liðið spilaði oft og tíðum vel saman og komust leikmenn oft í ákjósanlegar stöður, en
Það hefur háð Þór/KA nokkuð að undanförnu að liðinu hefur gengið erfiðlega að halda hreinu, fengið á sig 11 mörk í síðustu fjórum leikjum. Þrír af þessum leikjum enduðu með jafntefli og uppskeran því aðeins þrjú stig af síðustu 12 sem í boði hafa verið.

Segja má að samspil ónýttra færa og ódýrra marka hafi lækkað flugið sem liðið var á í upphafi tímabils þegar það vann til dæmis tvo leiki 4-0 og einn 5-0 á fáeinum vikum snemma móts. Einu sinni síðan þá hefur liðinu tekist að halda hreinu, en það var í 1-0 útisigri í Keflavík fyrir rétt rúmum mánuði, 24. júlí, sem er einmitt síðasti sigurleikur liðsins.

„Náum ekki að sauma fyrir og loka leikjum“

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA segist hafa átt von á hörkubaráttu.

„Leikurinn í dag var hörku barátta allan tímann. Við bjuggumst í raun við því þar sem staða Fylkis í deildinni gefur þeim lítið svigrúm til að slaka á eða gefa eitthvað eftir. Þær börðust eins og ljón allan leikinn og gáfu sig allar í þetta. Auðvitað vorum við að reyna það nákvæmlega sama,“ sagði Jóhann Kristinn eftir leik í dag.


Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, er með það á hreinu að of mikið svekkelsi hjálpi engum. Mynd: Þórir Tryggva.

Eftir gott mark snemma leiks hefðum við átt að láta kné fylgja kviði en því miður þá svöruðu heimastúlkur fyrir sig og jöfnuðu leikinn. Þrátt fyrir að við bönkuðum hressilega á dyrnar í Árbænum þá vildi bara boltinn ekki inn. Gott mark Fylkis tryggði þeim yfirhöndina í hálfleik. Okkur fannst það ekki gefa rétta mynd af leiknum og stelpurnar staðráðnar að snúa þessu okkur í vil. Aftur gerum við frábært mark og ætluðum svo sannarlega að fylgja því betur eftir í þetta skiptið. En eins og í undanförnum leikjum þá náum við ekki að sauma fyrir og loka þessum leikjum og því jafntefli staðreynd,“ sagði Jóhann Kristinn.

„Of mikið svekkelsi hjálpar engum“

Ljóst er að í leikjunum fimm sem fram undan eru, gegn öðrum liðum í efri hlutanum, þarf að þétta raðirnar og finna sjálfstraustið til að klára fleiri góðar sóknir með mörkum. En þrátt fyrir mörg vannýtt færi bendir Jóhann á að liðið skori mikið.

„Það er erfitt að svekkja sig of mikið á markaskorun eða vannýttum færum þar sem við erum að skora 2-3 mörk í hverjum leik,“ segir Jóhann. „Við verðum að verjast betur sem lið og klára allar stöður þar sem andstæðingurinn er með boltann. Við vitum af þessu og hvað við viljum gera betur. En það virðist okkur erfitt að ná að klára þetta 100%. Því hafa farið ansi mörg stig undanfarið í súginn og það er svekkjandi. En það vitum við líka að of mikið svekkelsi hjálpar engum við neitt. Við höfum nú heila viku til að hvíla lúin bein og ná okkur upp á tærnar fyrir fyrsta leik í „úrslitakeppninni“. Það gera stelpurnar enda mikill hugur og vilji í liðinu að standa sig vel og klára mótið með sóma.“

Besti árangur frá 2018

Þrátt fyrir að hafa misstigið sig að undanförnu er árangur liðsins engu að síður góður. Þriðja sætið og 30 stig er besti árangur Þórs/KA í sætum og stigum talið frá árinu 2018, miðað við 18 leikja deild. Þriðja sætið þýðir einnig að liðið spilar þrjá heimaleiki og tvo útileiki í lokakafla mótsins. Það skondna við það er þó að liðinu hefur gengið betur á útivelli en heimavelli. Heimavöllurinn hefur gefið 13 stig af 27 mögulegum, en útivöllurinn 17 stig af 27. Auk þess komu níu stig af þessum 13 heimavallarstigum í Boganum í upphafi móts þegar VÍS-völlurinn (Þórsvöllur) var ekki tilbúinn.

Yfirburðir Vals og Breiðabliks í sumar gera það hins vegar að verkum að önnur lið blanda sér ekki í baráttu um titilinn eða Evrópusæti þannig að fram undan er barátta milli Þórs/KA, Víkings, FH og Þróttar um sætaskipan á eftir toppliðunum. Af samtölum við þjálfara og fyrirliða Þórs/KA er alveg ljóst að ekki stendur til að slaka á í baráttunni um 3. sætið. Því sæti vill hópurinn halda. 

„Hvert einasta skref bætir í reynslubankann“

Við þessi kaflaskil sem nú verða með tvískiptingu og lokasprettinum í deildinni segir Jóhann aðspurður að honum finnist tímabilið í heild hafa verið nokkuð gott hjá liðinu. „Við vorum grátlega nálægt því að komast í úrslitaleikinn í Mjólkurbikarnum á Laugardalsvelli eftir framlengdan leik gegn Breiðabliki. Það er stutt á milli í þessu og sá leikur hefði hæglega getað dottið hvoru megin sem var. Við viljum meina að við höfum tekið enn eitt skrefið upp á við og hvert einasta skref bætir í reynslubankann,“ segir Jóhann þegar hann rifjar upp tímabilið það sem af er.


Pétur Heiðar Kristjánsson, aðstoðarþjálfari Þórs/KA, og Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari, rýna í stöðuna í undanúrslitaleik Mjólkurbikarsins í lok júní. Þeir voru grátlega nálægt því að leiða liðið sitt í úrslitaleikinn á Laugardalsvelli. Mynd: Þórir Tryggva.

„Það eru fleiri góðir leikir en slæmir. Fleiri góð augnablik en slæm og þannig á það að vera. Nú bíður okkar það verkefni að fækka þeim slæmu enn frekar og þá bætist í það góða. Þór/KA endar nú í 3. sæti eftir venjulega 18 leikja deild. Við erum vel á eftir toppliðunum og lítið við því að gera núna. Við ætluðum svo sannarlega að vera nær þeim. Það er markmið okkar að komast upp í þennan pakka og veita þeim harða samkeppni um það sem er raunverulega í boði fyrir þessi efstu tvö sæti í deildinni. Til þess að það geti gengið þarf allt að ganga upp. Leikmenn verða að eiga stöðugar frammistöður og þar með liðið. Við þurfum að hafa sterkan hóp til að bregðast við skakkaföllum og allir sem standa að liðinu verða að róa í sömu átt. Þetta er hægt og við erum nær þessu en marga grunar.“

Verkefnið fram undan er á hreinu í huga þjálfarans. „Nú þurfum við bara að hrista af okkur vonbrigðin með síðustu leiki og þétta raðirnar fyrir næsta leik. Koma sterkar til leiks og sýna sjálfum okkur og öðrum í Þór/KA samfélaginu þá virðingu að gefa allt í verkefnið. Nýta alla okkar hæfileika og getu til að ná fram góðri frammistöðu og þar með úrslitum fyrir liðið okkar. Saman erum við alltaf langsterkust og langbest! Áfram Þór/KA!“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA að lokum.


Leikmenn fagna marki í heimaleiknum gegn Val í deildinni í sumar. Sá leikur endaði með svekkelsi aðeins örfáum dögum áður en liðið féll síðan úr bikarkeppninni í framlengdum leik. Mynd: Þórir Tryggva.

Óstaðfest leikjadagskrá

Framhaldið hjá Þór/KA verður eins og sýnt er hér að neðan, en með fyrirvara um dagsetningar sem gætu breyst þar sem leikjaniðurröðunin hefur ekki verið endanlega staðfest af KSÍ. Til að mynda hittir fyrsti leikur liðsins í úrslitakeppninni á sama dag og heimaleikur hjá Þór í Lengjudeild karla. Það er hins vegar ljóst í hvaða röð Þór/KA mætir liðunum og hvaða leikir eru á heimavelli.

Laugardagur 31. ágúst
ÞÓR/KA - FH

Föstudagur 13. september
ÞÓR/KA - VALUR

Sunnudagur 22. september
BREIÐABLIK - ÞÓR/KA

Sunnudagur 29. september
ÞRÓTTUR - ÞÓR/KA

Laugardagur 5. október
ÞÓR/KA - VÍKINGUR