Þór
Í kvöld: Þór - Selfoss
27.10.2023 kl. 15:00
Harrison Butler í baráttu við KR-inga í eina heimaleik liðsins í deildinni hingað til. Hann meiddist í útileiknum gegn Fjölni og var ekki með í bikarleiknum gegn Haukum á sunnudaginn. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.
Karlalið Þórs í körfubolta tekur á móti liði Selfoss í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Leikurinn er í fjórðu umferð 1. deildar karla og binda heimamenn vonir við að þar líti fyrsti sigur Þórsliðsins á tímabilinu dagsins ljós.
Þórsarar hafa verið mjög nálægt því að krækja í sigra í útileikjum sínum gegn Snæfelli og Fjölni það sem af er móti. Leikurinn við Fjölni fór til dæmis í framlengingu. Eini heimaleikurinn hingað til var gegn KR og höfðu Vesturbæingar betur í þeirri viðureign. Selfyssingar hafa unnið einn leik af fyrstu þremur. Sá sigur kom gegn Ármanni í fyrstu umferðinni.
Leikur Þórs og Selfoss hefst kl. 19:15.