Þór
Heimaleikir KA og Þórs á sama tíma í dag
20.07.2024 kl. 06:00
Birkir Heimisson Þórsari og KA-maðurinn Daníel Hafsteinsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson
Bæði karlalið bæjarins í knattspyrnu spila á heimavelli í dag og eins furðulega og það hljómar þá fara leikirnir fram á sama tíma.
Þór tekur á móti Þrótti í Lengjudeildinni, næstu efstu deild Íslandsmótsins. Flautað verður til leiks á Þórsvellinum (VÍS-vellinum) klukkan 16.00.
KA fær Íslands- og bikarmeistara Víkings í heimsókn í Bestu deildinni og leikurinn á KA-vellinum (Greifavellinum) hefst klukan 16.15.
Einstaka sinnum hafa liðin spilað á heimavelli sama dag en elstu menn þykjast ekki muna eftir að leikið hafi verið samtímis áður. Annar leikurinn hefur þá byrjað kl. 14.00 og hinn 16.00. Niðurröðunin í dag vekur furðu.