Fara í efni
Þór

Gríðarlega mikilvægur leikur hjá KA/Þór í dag

Arna Erlingsdóttir, þjálfari KA/Þórs, gefur leikmönnum sínum góð ráð. Ljósmynd: Skapti Halgrímsson

KA/Þór fær Stjörnuna í heimsókn í dag kl. 16:30 í efstu deild Íslandsmóts kvenna í handbolta, Olís deildinni. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið í botnbaráttunni.

KA/Þór er í neðsta sæti með 5 stig, Afturelding er með 6 og Stjarnan 7 en KA/Þór á einn leik til góða, 

Stelpurnar okkar í KA/Þór eiga einnig eftir að fá Aftureldingu í heimsókn í deildinni og þurfa helst að vinna bæði þessi lið til að eiga raunhæfa möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Því er ástæða til að hvetja sem allra flesta til að mæta í KA-heimilið, bæði í dag og laugardaginn 16. mars gegn Aftureldingu, og hvetja þær til dáða.

KA/Þór hefur siglt í mótbyr á þessari leiktíð. Þrír burðarásar, Rut Jónsdóttir, Unnur Ómarsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir, hafa verið í barnseignarleyfi og ekki bætti úr skák að Rakel Sara Elvarsdóttir sleit hásin í desember og verður lengi frá. Mikið hefur því mætt á hinum mörgu ungu leikmönnum liðsins en í síðasta leik mætti Martha Hermannsdóttir, fyrrverandi fyrirliði, til leiks á ný eftir tæplega tveggja ára hlé, sem og Hulda Bryndís sem áður var nefnd. Allar hendur á dekk, sagði Martha eftir leikinn, til að reyna að bjarga liðinu frá falli.

Þetta er þriðja viðureign liðanna í vetur. Þau gerðu jafntefli 24:24 í KA-heimilinu í september og Stjarnan vann 24:19 í Garðabæ í janúar.