Fara í efni
Þór

Glæsilegur sigur á bikarmeisturunum

Sigri hrósandi Þórsarar í kvöld. Heiða Hlín Björnsdóttir rauðklædd, Eva Wium Elíasdóttir og Maddie Sutton. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu glæsilegan sigur á bikarmeisturum Hauka í kvöld, 74:69, í efstu deild kvenna í körfubolta, Subway deildinni.

Leikurinn var stórskemmtilegur. Byrjun Þórsara var reyndar afleit; eftir að Eva Wium kom heimamönnum í 3:0 með langskoti völtuðu gestirnir yfir Þórsara og höfðu 14 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta.

  • Skorið eftir leikhlutum – 9:23 – 24:16 – (33:39) 19:16 – 22:14 – 74:69

Þórsstelpurnar voru ekki á því að leggja árar í í bát og færðust smám saman í aukana. Haukar höfðu þó forystu allt þar til fjórði leikhluti var nákvæmlega hálfnaður.

Lore Devos, lengst til vinstri, kemur Þór yfir, 68:66, þegar þrjár mínútur voru eftir. Þór hafði ekki haft forystu síðan á upphafssekúndum leiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hin belgíska Lore Devos sýndi mátt sinn og megin í lokin; hún jafnaði með þriggja stiga skoti – 64:64 – þegar fimm mín. voru eftir af leiknum. Haukar gerðu tvö stig í næstu sókn en Devos jafnaði aftur og kom Þór svo yfir í fyrsta skipti í leiknum síðan staðan var 3:0, með þriðja tveggja stiga skotinu í röð. Staðan þá 68:66. Haukar misstu boltann og Devos skoraði enn; staðan þá 70:66.

Eftir að Haukar skoruðu kom Maddie Sutton Þór í 72:68 þegar liðlega tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum. Helena Sverrisdóttir átti lokaorð Hauka þegar hún skoraði úr einu vítaskoti og síðan var það títtnefnd Lore Devos sem innsiglaði sigur Þórs með því að skora úr tveimur vítum á síðustu andartökunum.

Maddie Sutton lék gríðarlega vel með Þór eins og oft áður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Maddie Sutton átti stórleik eins og svo oft áður í Þórsliðinu, skoraði 23 stig, tók 16 fráköst og átti sjö stoðsendingar. Hún gefur aldrei þumlung eftir og blæs samherjunum baráttuanda í brjóst. Devos var líka öflug og gerði gríðarlega vel í lokin. Annars var liðsheildin feykilega öflug þegar á leið.

Nýliðar Þórs eru nú komnir með fjóra sigra úr sjö leikjum, eins og Stjarnan og Njarðvík. Keflavík er á toppnum, hefur unnið alla sjö leikina en Valur og Grindavík hafa unnið fimm.

Stig – fráköst – stoðsendingar Þórsara:

  • Maddie Sutton 23 – 16 (þar af 14 í vörn) – 7
  • Lore Devos 21 – 8 – 0
  • Eva Wium Elíasdóttir 14 – 4 – 4
  • Jovanka Ljubetic 6 – 5 – 2
  • Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 5 – 4 – 3
  • Hrefna Ottósdóttir 3 – 2 – 0
  • Heiða Hlín Björnsdóttir 2 – 4 – 2
  • Jovanka Ljubetic 6 – 5 – 0

Eva Wium Elíasdóttir skýtur að körfu Hauka í kvöld. Landsliðskempan Helena Sverrisdóttir til varnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson