Fara í efni
Þór

Enn skorar Sandra og Þór/KA vann Þrótt

Sandra María Jessen, til vinstri, og Þróttarinn Jelena Tinna Kujundzic í Boganum í kvöld. Mynd: akureyri.net

Þór/​KA sigraði Þrótt 2:1 í Boganum í kvöld í 3. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu, efstu deildar Íslandsmótsins. Stelpurnar okkar eru þar með komnar með sex stig og eru í þriðja sæti deildarinnar þessa stundina.

Gestirnir byrjuðu mun betur, sóttu af krafti en sköpuðu þó ekki mörg hættuleg færi því varnarmenn Þórs/KA stóðu vaktina undantekningarlítið vel, en Harpa Jóhannsdóttir markvörður þurfti þó að leggja sig fram í tvígang og gerði mjög vel í bæði skiptin.

Þegar kom fram í miðjan hálfleikinn sóttu leikmenn Þórs/KA í sig veðrið, gerðu nokkuð harða hríð að marki gestanna og þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik kom fyrsta markið. Það var Sandra María Jessen sem braut ísinn, og kom líklega engum á óvart. Margrét Árnadóttir, sem lék að þessu sinni aftast á miðjunni og stóð sig afar vel, átti langa sendingu úr vörninni, Sandra María stakk vörn Þróttar af og skoraði örugglega framhjá Swift markverði.

Stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik þegar Sandra María skoraði aftur. Lara Ivansua, knár samherji Söndru í framlínunni, náði boltanum af varnarmanni Þróttar, lék inn að vítateig hægra megin og gaf á markamaskínuna sem var dauðafrí á markteig. Sandra María þakkaði kærlega fyrir að enginn Þróttari skyldi ónáða hana með því að reka smiðshöggið á góða sókn. Staðan orðin 2:0.

Gestirnir náðu að velgja Þór/KA undir uggum á lokakaflanum. Harpa varði tvisvar mjög vel frá Þrótturum en réð ekki við fast skot Caroline Murray yst úr vítateignum þegar komið var í uppbótartíma.

Þetta var leikur tveggja góðra liða og þrjú dýrmæt stig urðu eftir í höfuðstað Norðurlands. Lið Þórs/KA getur vel unað við byrjun Íslandsmótsins, tveir sigrar í þremur leikjum er góð uppskera, liðsheildin virkar öflug og svo er ekki ónýtt að tefla fram Söndru Maríu Jessen, sem hefur byrjað mótið frábærlega. Þessi baneitraði framherji hefur gert sjö mörk í fyrstu þremur leikjunum og verður vonandi iðinn við kolann í allt sumar!

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna