Fara í efni
Þór

Besta deildin: Þór/KA fær FH í heimsókn í dag

Fjórða marki Söndru María Jessen gegn FH í apríl fagnað. Frá vinstri, Agnes Birta Stefánsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir, Margrét Árnadóttir og Bryndís Eiríksdóttir. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og FH mætast í kvöld í 11. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Þórsvellinum (VÍS-vellinum). Leikurinn hefst kl. 18.00.

Þór/KA er í þriðja sæti deildarinnar með 21 stig en FH, sem hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum, kemur næst með 16 stig.

Fyrri leikur liðanna í deildinni fór fram í lok apríl og er enn í minnum vegna þess að Sandra María Jessen gerði öll mörkin í 4:0 sigri. Þór/KA tapaði naumlega fyrir Val í síðustu umferð, 2:1, en FH sigraði Tindastól 4:1.

Skemmtileg umfjöllun er á vef Þórs/KA í tilefni leiksins. Smellið hér til að fara þangað.

Á vefnum segir að upphitun og aðdragandi leiksins verði með hefbundnum hætti:

Grillið funheitt og borgaranarnir ljúffengir beint af grillinu, Jói [Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari] í sófanum eða Peddi [Pétur Kristjánsson aðstoðarþjálfari] á pallinum um kl. 17:15, Bestudeildarspjöldin til sölu í sjoppunni ásamt fleiru. Stelpurnar vonandi sjóðheitar í leiknum eins og oftast áður og stuðningsfólkið fyllir auðvitað stúkuna og styður stelpurnar til sigurs.

Sandra María Jessen fagnar þriðja marki sínu í 4:0 sigrinum á FH í Hafnarfirði í apríl. Hún lét ekki þar við sitja heldur bætti fjórða markinu við. Sandra er langmarkahæst í deildinni, hefur gert 12 mörk en næst koma þrír leikmenn með sjö mörk.