Fara í efni
Sverrir Páll

Kjörstaður í VMA – kjördeildum fjölgað

Kosið verður til Alþingis á morgun og kjörstaður á Akureyri er að venju í Verkmenntaskólanum. Vakin er athygli á að kjördeildum hefur verið fjölgað um eina, úr 10 í 11, og hafa því einhverjir kjósendur færst til um kjördeild frá því sem verið hefur í undanförnum kosningum. 

Alls eru 13 kjördeildir í Akureyrarkaupstað, þar af ein í Félagsheimilinu Múla í Grímsey og ein í Hríseyjarskóla.

Klárað í Grímsey, formaðurinn kýs á Akureyri

Akureyri.net greindi frá því fyrr í vikunni að áform væru um að öll þau sem eru á kjörskrá og dvelja í Grímsey um þessar mundir myndu greiða atkvæði utan kjörfundar í vikunni til að tryggja að ekki kæmi til tafa við talningu ef erfitt reyndist að koma kjörgögnum til Akureyrar. Það hefur nú gengið eftir, að langmestu leyti. Greint var frá því á mbl.is í morgun að af 18 manns á kjörskrá sem dvelja í Grímsey hafi 17 nú þegar kosið utan kjörfundar. Aðeins formaður kjörstjórnar í Grímsey, Anna María Sigvaldadóttir, hafði ekki kosið. Hún má nefnilega ekki kjósa utan kjörfundar hjá sjálfri sér og mun því kjósa á Akureyri í dag þegar hún fer með kjörkassa Grímseyinga í land. Engu að síður er skylda að hafa kjörstað opinn í ákveðinn tíma á morgun ef einhver kjósenda skyldi skipta um skoðun. Það er nefnilega þannig að þó kjósandi hafi greitt atkvæði utan kjörfundar getur hann mætt á kjörstað á kjördegi og kosið aftur, sem ógildir þá utankjörfundaratkvæðið.

Kjörfundur á Akureyri kl. 9-22

Kjósendur í Hrísey hafa verið hvattir til að mæta á kjörstað fyrir kl. 14 á morgun. Alla jafna eru kjörstaðir í Grímsey og Hrísey opnir til kl. 17 á kjördegi nema allir á kjörskrá hafi kosið fyrir þann tíma. Kjörfundur á Akureyri stendur kl. 9-22.

Á myndunum hér að neðan geta lesendur (kjósendur) séð út frá lögheimili sínu þann 29. október í hvaða kjördeild viðkomandi skal kjósa og hvaða inngangur er hentugastur fyrir hverja kjördeild. 

Veður og færð gætu haft áhrif

Ekki er loku fyrir það skotið að kjörfundur í kjördæminu verði lengdur fram á sunnudag, eins og fram hefur komið í fréttum fyrr í vikunni. Ástæðan er sú að gangi verstu veðurspár eftir er mögulegt að kjósendur komist einfaldlega ekki á kjörstað á laugardag, að minnsta kosti á sumum svæðum á Norður- og Austurlandi. Yfirkjörstjórn kjördæmisins ákveður þó ekki fyrr en á laugardag hvort sótt verður um það til landskjörstjórnar að lengja kjördaginn.

Hvort sem af því verður eða ekki er mögulegt að veður og færð hafi í það minnsta áhrif á talningu atkvæða því koma þarf kjörkössum úr öllu kjördæminu til Akureyrar þar sem talning fer fram. Þó er sá möguleiki fyrir hendi að skipaðar verði tvær undirkjörstjórnir á Austurlandi sem fái heimild til talningar, ef þess gerist þörf. 

Menntun eða próf II

Sverrir Páll skrifar
18. október 2024 | kl. 14:00

Menntun eða próf I

Sverrir Páll skrifar
17. október 2024 | kl. 16:00

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Framhaldsskóli fyrir nemendur

Sverrir Páll skrifar
08. mars 2024 | kl. 06:00

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00

Hver er eins og hann/hún er

Sverrir Páll skrifar
27. október 2023 | kl. 06:00