Fara í efni
Sverrir Páll

Hver er eins og hann/hún er

Að undaförnu hefur orðið vart nokkurs bakslags í réttindum og stöðu samkynhneigðra á Íslandi. Það er synd og skömm, því við vorum komin nokkuð vel á veg í þeim efnum, og erum vonandi á allgóðum stað í samanburði við önnur lönd, þótt einhverjar neikvæðar raddir hafi orðið áberandi upp á síðkastið. Verst þykir mér þegar niðurlægingin og ádeilan beinist að ungmennum, nemendum í skólum. Það eru nefnilega samkynhneigðir af einhverju tagi í öllum skólum, öllum skólum, hvaða nafni eða stigi sem þeir nefnast. Samkynhneigð er nefnilega ekki lærður eða áunninn veruleiki. Hneigð er í okkur frá upphafi, hver sem hún er, meira að segja í þeim sem gagnkynhneigðir eru. Það er ekki hægt að breyta gagnkynhneigðum í samkynhneigða/n frekar en hitt, sem reynt hefur verið án árangurs, að breyta samkynhneigðum í gagnkynhneigða/n. Það er hins vegar hægt að bæla kynhneigð sína, en sá sem gerir það er ekki frjáls, er ekki eins og hann/hún er. Það er ekki hollt.

Aðalleikararnir Kit Connor og Joe Locke og höfundurinn Alice Osmann á milli þeirra.

„Ég er eins og ég er“ söng Hafsteinn Þórólfsson upphaflega, og síðar Páll Óskar Hjálmtýsson, við texta Veturliða Guðnasonar. „Ég er eins og ég er, og hvernig á ég að vera eitthvað annað?“ Það er grundvallarspurningin. Hvers vegna má manneskja ekki vera í friði með að vera eins og hún er? Vera hún sjálf? Hvers vegna og með hvaða rétti ákveða einhverjir aðrir hvernig hún á að vera? Hver gefur fólki leyfi til að niðurlægja, hrækja á, öskra á, ráðast á og úthrópa þá sem eru einfaldlega að berjast fyrir því að fá að vera til? Að fá að vera til á sínum forsendum, í sínum líkama, að láta sér líða vel í samfélagi mannanna? Hvað í ósköpunum veldur því í menntuðu samfélagi að jafnvel kennarar í skólum taki sér þetta bessaleyfi. Mér þykir það ótækt, hvort sem er innan veggja skólanna eða utan. Kennari á að vera marktækur hvar sem hann er. Hann er ekki bara kennari í skólastofunni. Öðru nær.

Leikarahópurinn í stærstu hlutverkunum, hér eru ekki allir eins.

Fræðsla

Við erum komin nokkuð áleiðis í fræðslu um kynhneigðir, sem eru allmargar ef að er gáð. En samkynhneigð eða það að vera hinsegin eru einhvers konar regnhlífarhugtök fyrir það að vera með aðra hneigð en gagnkynhneigð, sem vissulega er algengust. Samtökin 78 hafa að undanförnu verið að færa út kvíarnar og bjóða skólum fræðslu um kynhneigð vegna þess að það eru ekki allir/öll eins. Í öllum skólahópum eru einhverjir sem eru eins og þeir eru, en ekki eins og allir hinir. Því miður hafa einhverjir notað tækifærið og gagnrýnt þetta starf Samtakanna og ruglað því saman við kynlífsfræðslu, sem líka hefur verið deilt um. En kynhneigð og kynlíf er ekki sama tóbakið. Það ætti skynsamt fólk að geta skilið. Fræðsla um að ekki séu allir eins er nauðsynleg. Nemendur mínir sem ég átti tal við þegar ég tók saman svolítinn bækling um samkynhneigð í skólum fyrir nokkrum árum sögðu flestir að þeim hefði þótt verst að heyra aldrei talað um sig í skólanum, það væri bara talað um einhverja heild sem þeir áttu ekki fulla samleið með. Og í sumum skólum urðu þeir fyrir aðkasti ef upplýstist að þeir væru ekki eins og meirihlutinn, að þeir væru hinsegin. Urðu jafnvel fyrir einelti og hrökkluðust á milli skóla eða úr þeim. Ég vona að það sé liðin tíð.

Hér fyrir tveim áratugum eða svo var dálítið starf á vegum Norðurlandshóps Samtakanna 78 og hóps foreldra og aðstandenda samkynhneigðra á Akureyri og nágrenni. Við héldum meðal annars ráðstefnuna Hver er sá veggur, sem einkum var ætluð skólum og íþróttafélögum og þar voru flutt margvísleg erindi, meðal annars um þátttöku samkynhneigðra í hópíþróttum. En í framhaldi af ráðstefnunni voru nokkur af þeim sem fyrir ráðstefnunni stóðu fengin til að eiga fundi með námsráðgjöfum allra grunnskólanna á Akureyri. Í framhaldi af því var farið í kynnisferðir í skólana, reyndar einnig til Sauðárkróks, Grenivíkur og Neskaupstaðar, og rætt við kennara og starfsfólk. Á þessum ágætu fundum var ævinlega ungur hommi eða ung lesbía og þau héldu upp samræðum við skólafólkið um það hvernig þeim fyndist eiga að fjalla um kynhneigð í skólunum, öllum til upplýsingar, svo þau gætu verið örugg innan um alla hina og enginn þyrfti að óttast nærveru þeirra. Það var meira að segja samið sérstakt kennsluefni um þetta, alls konar mismunandi fjölskylduform í sama húsi, og kennt í einhverjum skólum til prufu. Ég veit ekki hvort eða hvert framhaldið var, því við sem þessu sinntum um sinn snerum okkur að öðrum verkefnum. En það sem ég tók með mér af þessum fundum var að kennurum þætti erfitt að tala um þessi mál. Það er eðlilegt, til þess þarf tilefni og æfingu og það gerist ekki án leiðsagnar eða fyrirhafnar. En síðan eru liðin mörg ár og margt hefur breyst. Og sífellt hefur gengið ögn betur hjá fólki að koma út úr skápum og finna fjölina sína. Sem betur fer.

Hjartastopp

Fyrir nútímafólk, þá sem eru að velta fyrir sér kynhneigð sinni, vini þeirra, fjölskyldur og bókstaflega alla sem málið varðar væri til dæmis gagn og gaman að skoða þáttaraðirnar Heartstopper, sem eru á Netflix og hafa farið sannarlega sigurför um gervallan heim. Þar skýrist svo margt í lífi venjulegra ungmenna. Þetta eru þættir um ástina og lífið, þetta er ekkert klám. Þetta er bara fallegt, einlægt og eðlilegt, komnar tvær raðir og sú þriðja væntanleg á næsta ári.

Heartstopper er bresk þáttaröð um unglinga á framhaldsskólaaldri og hvernig þeim farnast við að átta sig á kynhlutverkum sínum, því ekki eru allir eins, heldur er hver eins og hann er. Persónurnar eru fjölbreytilegar og tekið á mörgum afbrigðum af litrófi lífsins. Þetta eru þættir sem fjalla um vináttu, ást, væntumþykju, virðingu, traust og sjálfstæði einstaklingsins en þarna kemur líka fram andstaða, vantraust, niðurlæging á þeim sem eru öðruvísi en heildin, ólík viðbrögð bæði meðal jafnaldra og foreldra og systkina. Þetta er fjölbreytt og fróðlegt en í heild afar vel gert, fjallar um gagnkynhneigða, homma, lesbíur, tvíkynhneigða, trans og eikynhneigða, svo það sé bara sagt. Fyrirmyndin er í teiknimyndasögunum Hjartastopp eftir næstum þrítuga konu, Alice Osmann, tvær fyrstu bækurnar eru komnar út á íslensku, sú fimmta á frummálinu væntanleg í desember á Englandi. Þetta fjallar um ást og unglinga.

Teiknimyndasagan og kvikmyndin fylgjast vel að.

Charlie Spring og Nick Nelson eru aðalpersónur Heartstopper. Charlie hefur lent í grófu einelti í skóla fyrir það að vera hommi. Þegar hann kemur í nýjan bekk er hann látinn sitja hjá Nick Nelson, rúgbýhetju skólaliðsins, sem reynist vera tvíkynhneigður. Í nánasta vinahópi Charlie eru Elle, sem er trans, Tao og Isaak, sem er eikynhneigður. Elle er nýfarin í annan skóla þar sem hún kynnist Töru og Darcy, sem eru lesbíur. Og þarna er líka Ben, sem bregst. En í skólanum eru ótalmargir aðrir, flestir gagnkynhneigðir en hver veit, ekki eru allir opnir með hneigð sína. Þarna koma líka við sögu kennarar, foreldrar og systkini og mismunandi viðtökur þeirra við lífi helstu persónanna.

Stundum er lífið flókið. Sumir eru ljúfir og aðrir hrjúfir. En Heartstopper er afskaplega vel gert sjónvarpsefni og hollt og gott öllum að skoða það til að sjá hvað fólk er fjölbreytilegt og hvað lífið getur tekið á sig margvíslegar myndir. Þetta er fallegt og fjallar um vináttu og ást, en ekki kynlíf og þaðan af síður klám. Og nokkrar helstu persónur Heartstopper hafa farið í kynnisferðir og viðtöl um víða veröld og komist að því að myndirnar hafa auðveldað mörgum að koma úr fyglsnum sínum og finna frelsi í lífinu. Og leikararnir hafa unnið til verðlauna og verið fengnir til módelstarfa.

Ég mæli með því að fólk skoði Heartstopper og reyndar hef ég stundum sagt að þessi þáttaröð ætti að vera skylduefni í öllum skólum. Þetta er fallegt, sakemmtilegt og lærdómsríkt og ég hef sjálfur lært heilmikið af því að skoða það.

Og munum svo að hvert okkar á fullan rétt á að vera eins og við erum. Hvernig sem við erum á litinn, hver sem trú okkar eða kynhneigð er. Við eigum að vera í friði í okkar heimi.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018

Menntun eða próf II

Sverrir Páll skrifar
18. október 2024 | kl. 14:00

Menntun eða próf I

Sverrir Páll skrifar
17. október 2024 | kl. 16:00

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Framhaldsskóli fyrir nemendur

Sverrir Páll skrifar
08. mars 2024 | kl. 06:00

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00

Að varðveita menningarefni

Sverrir Páll skrifar
02. júlí 2023 | kl. 20:30