Fara í efni
Sverrir Páll

Að sparka reynsluboltunum

Að undanförnu hafa verið nokkrar umræður um það að hið opinbera láti kennitölu ráða því að starfsfólki skuli sagt upp endanlega. Hér er átt við það að starfsmaður skuli skilyrðislaust vera látinn hætta (það heitir að honum sé veitt lausn) í lok þess mánaðar sem hann á sjötugsafmæli.

Umræðurnar hafa meðal annars stafað af því að margir sem ná þessum aldri eru enn fullfrískir andlega og líkamlega og hafa sumir auk heldur bæði löngun og vilja til að láta gott af sér leiða í fáein ár til viðbótar. Una því ekki að vera strikaðir út eða skolað niður úr kerfinu fyrir þá sök eina að hafa orðið sjötugir. Vissulega eru þeir líka til sem taka því guðs fegnir að öðlast frelsi frá starfi um sjötugt og sumum hentar að ljúka störfum talsvert löngu fyrr, eru orðnir þreyttir og leiðir á vinnu sinni og vilja snúa sér að öðru. Sem betur fer eru ekki allir eins. Sumir hætta skilvíslega þegar þeir ná 67 ára aldri og sumir nýta sér ákvæði, sem trúlega eru fólgin í kjarasamningum, um að láta af störfum samkvæmt svokallaðri 95 ára reglu. En sumir vilja vinna lengur.

Til eru lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og þau eru meðal annars birt á vef Alþingis. Ef maður les þann pakka allan kemur í ljós að hann fjallar í meginatriðum um réttindi ríkisins og skyldur starfsmanna og hvernig ríkið eigi að bregðast við ef starfsmaður gerist á einhvern hátt brotlegur í starfi. Það er önnur saga. En í 33. grein þessara laga segir einfaldlega: Embættismanni skal veita lausn frá og með næstu mánaðamótum eftir að hann nær 70 ára aldri. Einfaldlega SKAL, og enginn afsláttur eða undantekning frá því. Mér skilst að yfirmenn stofnana lendi í ógöngum ef þeir láta sér koma til hugar að draga uppsögnina eitthvað umfram það sem segir í greininni.

Það er skiljanlegt að þessi grein, svo altæk sem hún er, hafi þótt eðlileg fyrir tveim eða þrem áratugum, það þarf ekki að hafa langar tölur um það hverjar breytingar hafa orðið í samfélaginu á þeim tíma, meðalaldur hækkað, lýðheilsa eflst og eldri borgarar eru jafnan heilbrigðari mun lengur en var. Þess vegna má kalla það hreina tímaskekkju að í þessari 33. grein laganna skuli enn standa SKAL en ekki MÁ. Af hverju ætti ekki að leyfa þeim sem hafa bæði heilsu og vilja til að vinna að gera það ögn lengur? Af hverju er hið opinbera að losa sig við reynsluboltana?

Nú er það svo að ég hef verið kennari svo gott sem alla mína hunds og kattar tíð. Ég kenndi á framhaldsskólastigi í 44 ár og einu betur í grunnskóla. Mér hefur aldrei leiðst starf mitt, aldrei hef ég kviðið fyrir komandi viðfangsefnum og ævinlega hlakkað til hvers vetrar, hvers vinnudags. Kennarastarfið var líf mitt. Ég vissi svo sem vel að ég yrði sleginn af, en er svo heppinn að eiga afmæli á sumarleyfistíma, en ekki á miðri önn. Samstarfsfólk mitt kvaddi mig með virktum og óvæntum fagnaði og þakkaði þannig samfylgdina (hvorugt ráðuneytið sem ég vann fyrir hefur á þeim næstum þrem árum sem liðin eru sagt við mig takksvei þér. Ég er ekki lengur til þar, ég var látinn hverfa, strikað yfir mig). Ég hafði svo sem hugsað mér að hægja á mér og draga úr kennslu undir lokin en atvikin höguðu því svo að ég var til enda í fullu starfi. Og eftir á að hyggja hefði mig langað til að vera í hálfu starfi eða svo í fáein ár fram yfir sjötugsafmælið, en ég mátti það ekki. En ég hef svo sem meira en nóg að gera, en ég veit að það er hins vegar ekki algilt um eftirlaunafólk.

Mér er ljóst að ég er ekki einn um að vera í þessari stöðu. Ég minnist dæmis um að kennari hafi stefnt ríkinu fyrir uppsögn fyrir aldurs sakir. Það var til lítils, enda fátt um réttindi starfsmanna í lögunum sem hér hefur verið vitnað til. Ég veit líka að í ýmsum stofnunum öðrum en grunn- og framhaldsskólum hafa starfsmenn svigrúm til að halda áfram starfi að hluta og með sérstökum skilmálum fimm ár eða svo fram yfir sjötugsafmælisdaginn. Meðal annars af þeim sökum er mér hulin ráðgáta af hverju hið opinbera losar sig svona skilmerkilega við reynslubolta í grunn- og framhaldsskólum sem langar til að láta gott af sér leiða aðeins lengur. Mér hefur komið í hug að orsökin sé ekki merkilegri en svo að með því að sparka gömlum kennara sparist fáeinar krónur, vegna þess að með starfsaldrinum hafa launin hækkað og ungum kennara á byrjunarreit eru greidd lægri laun.

Vinur minn einn, sem hefur unnið hjá ríkisstofnun og var sagt upp, kallaði þann atburð ótímabært úrkast. Þeir sem ráða fyrir þeirri stofnun vildu þátt fyrir „elli hans og hrörleika“ nýta sér skapandi kraft hans og reynslu og hafa gert það. Þetta er sem sagt hægt sums staðar - en ekki í grunn- og framhaldsskólum. Það er samt rétt að taka fram að núverandi forsætisráðherra hefur sagt að þessi lög séu barn síns tíma og það beri að taka upp sveigjanleg starfslok hjá starfsmönnum ríkisins. Þrátt fyrir það gerist ekki neitt. Ekki enn.

Á þessu máli er til einföld lausn. Það er lagabreyting sem felur í sér að skipta út einu orði í þessari umræddu 33. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að fella brott orðið SKAL en setja þess í stað orðið MÁ. Að starfslok séu sveigjanleg. Vegna þess að starfsmaður verður ekki ónýtur á einum degi. Sjötugsafmælið er ekki lífshættulegt og á þeim degi slokknar ekki á viti, vilja og reynslu neins manns.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018.

Menntun eða próf II

Sverrir Páll skrifar
18. október 2024 | kl. 14:00

Menntun eða próf I

Sverrir Páll skrifar
17. október 2024 | kl. 16:00

Fagurt er til fjalla

Sverrir Páll skrifar
12. maí 2024 | kl. 11:30

Framhaldsskóli fyrir nemendur

Sverrir Páll skrifar
08. mars 2024 | kl. 06:00

Og Björk að sjálfsögðu

Sverrir Páll skrifar
27. febrúar 2024 | kl. 15:00

Hver er eins og hann/hún er

Sverrir Páll skrifar
27. október 2023 | kl. 06:00