Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Happdrættisvinningurinn

Nú í vikunni fékk ég SMS frá happdrætti þar sem mér var tilkynnt að ég hefði unnið 30.000 kr. vöruúttekt í stórverslun hér í bæ. Gjafakort væri á leiðinni í pósti.

Ég hringdi strax í eiginkonuna, gerði henni viðvart um vinninginn og tók fram að hún fengi að njóta sanngjarns hluta af inneigninni þar sem við værum hjón. Af örlæti mínu stakk ég upp á að sirka einn sjötti af upphæðinni kæmi í hennar hlut.

Skemmst er frá því að segja að konan brást ókvæða við þessu rausnarboði, sagðist eiga miðann sjálf, hann væri á hennar nafni, hún réði því algjörlega hvernig hún ráðstafaði sínum happdrættisvinningum og þyrfti ekkert að vera upp á mig komin í því. SMS um vinninginn hefði líka borist henni, samhljóða mínu. Hún skildi ekkert í af hverju væri verið að senda mér tilkynningu um hennar vinning þótt við værum í hjónabandi.

„Það er sama gamla fjandans feðraveldið allstaðar,“ sagði hún.

Stemmingin við kvöldverðarborðið var í þyngri kantinum og engu líkara en að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sæti öðrum megin en hinum megin forystukona verkalýðsfélagsins Eflingar.

Þar sem enginn sáttasemjari var á staðnum ákvað ég að leggja fram miðlunartillöguna sjálfur. Hún gekk út á að réttmætur eigandi miðans fengi að eyða tveimur þriðju af vinningsupphæðinni, t. d. í snyrtivörur, gegn því að eiginmanni vinningshafa yrði leyft að verja einum þriðja af inneigninni til kaupa á matvælum í sælkeradeild verslunarinnar – enda löngu orðið tímabært að gera hlé á megrunarátakinu sem hann hafði verið í frá því um áramótin og safna bæði kröftum og kílóum til frekari afreka.

Ekki var þessari tillögu tekið betur en öðrum miðlunartillögum sem fram hafa komið á þessu ári. Lá við að upp úr syði og kæmi til handalögmála þarna við kvöldmáltíðarborðið. Gengið var til náða í ískaldri þögn og breidd hjónarúmsins nýtt til hins ýtrasta.

Kveðjurnar voru stuttar og svalar sem roskin hjón á syðri Brekkunni skiptust á þegar nýr dagur kviknaði. Happafengurinn óvænti frá Sambandi íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga virtist vera að rífa hjartað úr brjósti þessa tiltekna hjónabands.

Ekki get ég sagt að ég hafi hlakkað mikið til að koma heim að loknum vinnudegi en hafði þó, eftir mikla umhugsun og innri baráttu, ákveðið að játa mig sigraðan og afhenda eiginkonu minni vöruúttektina umdeildu heila og óskipta.

Um leið og ég gekk inn í forstofuna sá ég að póstur hafði borist. Nokkur bréf lágu á gólfinu. Ég tók þau upp og fletti umslögunum. Fremst var bréf frá happdrættinu, merkt konunni minni. Ég las mig áfram í gegnum bréfabunkann.

Þar var annað bréf frá happdrættinu, með nafninu mínu.

Við áttum sem sagt bæði happdrættismiða. Og við fengum sömu vinningana sama daginn. Og okkur bárust samhljóða SMS um vöruúttektirnar.

Ef þið rekist á okkur næstu dagana í búðinni með kortin okkar, annað hvort í snyrtivörudeildinni eða hjá sælkeravörunum, þá vitið þið að þar eru á ferðinni Heppnu hjónin.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Orðhákar og töfralausnir

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 08:30

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
27. september 2024 | kl. 17:00

Garður við kirkju

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
16. ágúst 2024 | kl. 07:00